148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:57]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla líka að þakka fyrir umræðuna sem er mjög mikilvæg. Ég ætla að nota tækifærið, þar sem ég sit ekki í hv. velferðarnefnd, til að fagna þessu máli og koma sjónarmiðum mínum á framfæri. Ég tek samt undir að það er ankannalegt að standa hérna enn og aftur og fagna þessu frábæra mannréttindamáli þegar okkur hefur ekki enn þá tekist að koma því almennilega í gegn. Ég tek því alveg undir þau sjónarmið sem hér hafa verið nefnd hvað það varðar.

Ég á sem sagt ekki sæti í hv. velferðarnefnd en var varamaður þar á síðasta kjörtímabili. Ég sat einmitt fundina þegar við vorum að fjalla um þetta mál undir lok síðasta kjörtímabils og skrifuðum undir samkomulagið, sem ég held að hafi verið mjög mikilvægt, þar sem allir flokkarnir sameinuðust um að ráðast í þetta verkefni strax við upphaf þessa þings. Þess vegna er mjög mikilvægt að þetta bráðabirgðafrumvarp fari strax í gegn.

Ég veit nú ekki hvort sanngjarnt sé að halda því fram í ræðustóli Alþingis að einhverjir ákveðnir flokkar hafi tafið málið. Ég held nefnilega að það hafi verið almenn skoðun í velferðarnefnd að það vantaði ákveðna þætti upp á að klára málið og var þá hv. velferðarnefnd ekki síst að ræða framvinduna sjálfa, þ.e. reglugerðina og handbækurnar sem verið var að vinna í ráðuneytinu, og sem við sem sátum þá í nefndinni vildum gjarnan sjá inn í þá vinnu.

Hér ræðum við um einstaklingsmiðaða þjónustu, en framkvæmdin er alltaf rosalega krefjandi fyrir stjórnsýsluna, jafn mikilvægt og það er engu að síður út frá jafnréttissjónarmiðum og þess háttar. Sem manneskja sem þekkir vel til sveitarstjórnarstigsins hef ég haft svolitlar áhyggjur af framkvæmdinni.

Það kann svo vel að vera að við í þessum sal dettum kannski ofan í of mikil smáatriði. Ég tek undir það að nú erum við komin á þann stað að öll sjónarmið hafa örugglega komið fram. Það er búið að reyna að sætta þau í þessu frumvarpi, en þegar frumvörpin verða send aftur til umsagnar munu sömu sjónarmiðin koma aftur fram. Það er ekkert víst að hægt sé að ná utan um það allt með betri hætti en hér hefur verið gert.

Mig langar því að hvetja hv. velferðarnefnd áfram í störfum sínum og held að hér sé um þannig mál að ræða að það sé mikilvægara að klára það fyrr en síðar og sætta sig við að við kunnum að þurfa að gera breytingar. Ég held að sé líka gríðarlega mikilvægt fyrir sveitarfélögin, sem munu vera framkvæmdaraðilinn í þessari þjónustu, að það liggi skýrt fyrir sem fyrst hvernig þessu verður háttað og að þau fái sem fyrst að sjá handbækurnar og reglugerðirnar sem verið er að vinna í ráðuneytinu.

Í mínum huga, og ég held örugglega okkar allra, fjallar þetta fyrst og fremst um hagsmuni notendanna. Það er það sem við þurfum að horfa til númer eitt, tvö og þrjú.

Mig langaði að tæpa á tveimur atriðum sem ég hef haft dálitlar áhyggjur af og nefndi í ræðu minni á þarsíðasta þingi þegar þetta mál kom til umræðu, ég beini því til þeirra sem sitja í hv. velferðarnefnd; annars vegar varðandi frístundaþjónustu fyrir fatlaða nemendur og mikilvægi þess að sveitarfélögin séu látin vinna saman að þessu máli. Það kann að vera auðveldara fyrir sveitarfélögin að veita þjónustu fyrir börn með miklar stuðningsþarfir inni í skólunum, en þá er félagslegi þátturinn alltaf erfiðari. Það kann að vera skynsamlegra að horfa til stærri úrræða þar sem sveitarfélögin vinna saman.

Svo hitt, sem varðar skyldur sveitarfélaga til að veita þeim stuðningsþjónustu sem búa á heimilum og þurfa aðstoð vegna skertrar getu, þá er undanþegið ákvæði þar sem fram kemur að sveitarfélögin þurfi ekki að veita þá stuðningsþjónustu inni á stofnunum. Þá er vísað sérstaklega á sjúkrahús og öldrunarstofnanir í ljósi þess að þegar við breytum lögum um hjúkrunarheimili eru þeir sem búa núna á hjúkrunarheimilum ekki endilega eldri borgarar. Það getur verið jafnvel ungt fólk sem þarf á mjög mikilli stuðningsaðstoð að halda, en það fólk þarf mögulega á meiri félagslegri aðstoð að halda en viðkomandi hjúkrunarheimili getur veitt. Mér finnst eins og þessir einstaklingar, sem eru betur fer mjög fáir, lendi stundum á milli í þessum kerfum. Ég varpa því inn í velferðarnefnd að þau hafi það í huga hvort hægt sé með einhverjum hætti að taka utan um það. Það kann að vera að það sé ekki hægt í löggjöfinni sem slíkri en sé kannski frekar efni í reglugerð. Ég átta mig ekki fyllilega á því.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna frekar en hvet hv. velferðarnefnd til dáða í þessu verkefni.