148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

tannlæknaþjónusta við aldraða og öryrkja.

[13:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að nota þessar sekúndur sem ég hef hér til að fylgja þessu eftir. Við þurfum að ganga úr skugga um það hversu vel niðurgreiðsla sjúkratrygginga hefur verið að nýtast börnum og hver staðan er í raun á Íslandi varðandi tannlækningar barna. Ég hef ástæðu til að ætla að þar sé um að ræða verulegan mun milli barna eftir félagslegri stöðu hvort þessi þjónusta sé sótt yfir höfuð eða ekki óháð niðurgreiðslunni. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða líka. Við þurfum að vita hver staðan er í dag til að vita hvert markmið okkar á að vera og hvert við eigum að sækja í þessum málaflokki. En ég er algjörlega sammála hv. þingmanni að tannheilsa á að vera hluti af almennri heilsu og heilbrigðisþjónusta sem snýst um munninn í okkur á náttúrlega að vera partur af heilbrigðisþjónustunni almennt. Ég lýsi því sérstakri ánægju með að eiga liðsmann í hv. þingmanni í því að sækja fram í þessum málaflokki.