148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

ný vinnubrögð á Alþingi.

[14:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég get nú ekki verið annað en ósammála hv. síðasta ræðumanni um að það sé vandamál í sjálfu sér að á Íslandi sitji þingbundin ríkisstjórn. En það er vissulega á hinn bóginn rétt að það þarf að fara yfir og ganga vel frá samskiptum löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins engu að síður, þótt við byggjum á þingræðisskipulaginu.

Ég þakka þessa umræðu og er ánægður með hana. Ég legg áherslu á að vinnubrögð á Alþingi eru ekki bara einangraður, lokaður heimur óháður ástandi samfélagsins eða þaðan af síður framkvæmdarvaldinu heldur er það samhangandi með mörgu öðru. Vissulega þarf Alþingi að líta sérstaklega í eigin barm. Vissulega er í okkar höndum að fjalla um mjög mikið af þessu. En það er líka ljóst að það hvernig framkvæmdarvaldið undirbýr og leggur fram sín mál markar heilmikið störf Alþingis. Ástandið í samfélaginu, í stjórnmálunum almennt, allt spilar þetta inn í það sem hér fer fram.

Ég fagna sérstaklega áformum um að efla Alþingi og að skilaboð um það eru sett í stjórnarsáttmála. Einhver kann að spyrja í framhaldi af þessu sögðu: Hverju sætir að hæstv. forsætisráðherra er hér til svara í umræðu um bætt vinnubrögð á Alþingi? En það á sér a.m.k. tvíþætta röksemd: Annars vegar þetta sem ég nefni, að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar er núna sérstaklega fjallað um þetta og meira að segja í heiti sáttmálans, og í öðru lagi að það hvernig framkvæmdarvaldið undirbýr og leggur fram sín mál hefur geysilega mikil áhrif á störf Alþingis. Þar getum við sameiginlega gert betur. Ég held að við gætum litið t.d. til Noregs í þeim efnum þar sem sterkar hefðir ríkja um hvernig stór og afgerandi mál, stefnumótandi mál, eru undirbúin áður en þau verða að veruleika og eru til afgreiðslu á Stórþinginu. Það gildir bæði um frumvörp og þingsályktunartillögur, oftast á grundvelli einhvers konar hvítbókarvinnu. (Forseti hringir.) Með öðrum orðum, frú forseti: Þetta snýr bæði að okkar innri veruleika en líka samskiptum okkar við aðra.