148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

ný vinnubrögð á Alþingi.

[14:53]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Ég vil fyrst segja um nefndarformennsku að ég fagna því að stjórnarandstaðan ákvað að taka að sér nefndarformennsku. Það hefur einungis einu sinni gerst síðan þessu var breytt í þingskapalögum og það var á árunum 2013–2016 þegar Vinstri græn og Samfylkingin tóku formennsku þeirra nefnda sem þáverandi ríkisstjórn bauð fram. Ég tel að það hafi verið til bóta fyrir Alþingi sem heild að við gerðum það. Ég tel að það verði til bóta fyrir Alþingi sem heild að stjórnarandstaðan hafi tekið að sér formennsku nefndanna núna.

Ég vil segja um vinnubrögðin, það er ekki eins og Alþingi hafi verið algerlega óalandi og óferjandi hingað til. Ég vil nefna sem dæmi um góð vinnubrögð að í efnahags- og viðskiptanefnd síðasta þings tók þáverandi formaður, sem reyndar er áfram formaður, mjög vel í það frumkvæði sem kom frá stjórnarandstöðunni um að setja tiltekin mál á dagskrá nefndarinnar. Við fórum í ítarlega umræðu innan nefndar að frumkvæði stjórnarandstöðu. Það var svo sem enginn sem veitti því neina sérstaka eftirtekt, enda ekki neitt sem var ætlað fyrir einhverjar fyrirsagnir í blöðum en gerði að verkum að umræðan í nefndinni var miklu vandaðri þegar kom að atriðum sem tengdust fjármálakerfinu. Þetta voru málefni sem lutu að því.

Ég vil aðeins ræða gagnsæið. Talað hefur verið um að opna þurfi reikninga Alþingis. Ég tel að það sé mjög mikilvægt. Ég tel að við getum í öllu falli gert meira af því að opna nefndarfundi þótt eðlilegt sé að stundum sé hugsanlega hægt að hafa þá lokaða. Það er eitthvað sem við mættum ræða. Það eina sem ég hef haft áhyggjur af með að hafa alla nefndarfundi opna er hvort hv. þingmenn veigri sér þá við að spyrja bjánalegu spurninganna í beinni útsendingu. En ég held að það sé eitthvað sem við ræðum og leysum. Ég held að það sé mikilvægt að við förum lengra í þessa átt, að opna fundina.

Svo hvað varðar skipulag og skilvirkni, því aðeins hefur verið rætt um það. Ég vil minna á að Alþingi á ekki bara að vera skilvirkt, þótt það gæti verið skilvirkara, því að þetta er málstofa eins og hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson nefndi. Þarna þurfum við að fara bil beggja og mikilvægt að við bæði höldum skilvirkni en líka leyfum málstofuhlutverkinu að ríkja.

Síðan er það skipulagið. Ég kallaði mjög eftir bættu tímaskipulagi þegar ég byrjaði hér fyrir tíu árum. (Forseti hringir.) Svo gerist það að þetta verður eins og fíkn, að hafa þetta alltaf í algeru óskipulagi þannig að áhuginn á að bæta skipulagið minnkar. En ég vona að nýir þingmenn haldi þessum fána á lofti og láti okkur hin sem höfum verið hérna lengur ekki ráða of miklu með þetta, því að þetta getur auðvitað verið talsvert skipulagðara en það er í dag.

Ég þakka annars fyrir umræðuna.