148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

bygging 5.000 leiguíbúða.

43. mál
[15:59]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir þessa ágætu yfirferð og þessa fínu þingsályktunartillögu. Eins og kom fram í máli hans er mikil uppsöfnuð þörf. Ég held því fram að það sé hreinlega þjóðhagslega óhagkvæmt að fólk óttist heimilisleysi eða búi við of slæmt húsnæði. Það er nefnilega þannig að fólk sem hefur áhyggjur af húsnæðinu sínu mun ekki geta gert allt sem það vill. Það er sömuleiðis ólíðandi að fólk hafi ekki þak yfir höfuðið. En húsnæðisskorturinn þýðir ekki bara að fólk hafi ekki þak yfir höfuðið heldur líka að fólk hafi of lítið þak, of lágreist þak, of dýrt þak, þak sem lekur eða þak sem gerir fólk veikt út af myglu og þess háttar. Það er vandinn.

Svo er aðfangavandinn. Það var ágæt grein eftir Ævar Rafn Hafþórsson í Kjarnanum þar sem kom fram að það tekur um 34 klukkustundir á fermetra í vinnutíma að byggja 120 fermetra íbúð. Ef við gerum ráð fyrir að reistar séu 2.000 íbúðir á ári eins og Ævar Rafn gerir í greininni eru það 240.000 fermetrar eða 8.160 þús. klukkustundir. Vandinn þar stafar af því að okkur vantar meiri aðföng, þ.e. hæft fagmenntað vinnuafl sem ræður við að vinna alla þessa vinnu.

Hluti af lausninni til lengri tíma litið er að efla iðnnám og gera iðnnám eftirsóknarvert en í augnablikinu er erfiðara að sækja nægilegt vinnuafl til að geta leyst öll þessi vandamál.

Svo er það efnahagslegi vandinn. Það er þensluhvetjandi að byggja upp. Það er dýrara að byggja ef eftirspurnin eftir vinnuafli er meiri en framboðið. Við vitum að það er flókið að gera þetta, m.a. vegna þess að það þarf að úthluta lóðum og það tekur tíma að sinna því. Sveitarfélög hafa staðið sína plikt varðandi uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson lagði fram ágætisfyrirspurn um það síðastliðið vor, fyrirspurn sem skilaði inn tölum sem voru ekki alveg nógu góðar.

En spurningin er: Hvað eigum við að gera? Í þessari tillögu er lagt til að við treystum ekki markaðnum bara í blindni eins og hefur oft verið lagt til heldur sé farið í góða innspýtingu. Það er að vísu óljóst hversu mikið af húsnæði vantar. Eftir því hvern maður spyr er það 1.500 eða 9.000 íbúðir. Talan 1.500 kemur frá Reykjavíkurborg, 9.000 frá Íbúðalánasjóði. Ég er hallur undir að treysta hærri tölunni en gögnin eru ekki nógu góð. En við þurfum þessa innspýtingu. Skuggafjárlög Pírata á sínum tíma (Forseti hringir.) lögðu til töluvert meiri innspýtingu en þetta. En þetta dregur alla vega langt í rétta átt og ég þakka fyrir góða tillögu sem ég vona að nái fram að ganga.