148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

bygging 5.000 leiguíbúða.

43. mál
[16:09]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni alveg hreint ágætismál. Eins og við vitum öll kreppir að á húsnæðismarkaði, þótt miklar og jákvæðar breytingar eigi sér stað í málaflokknum. Ég vil minna á það að á kjörtímabilinu 2013–2016 var gengið í miklar breytingar í þessum málum sem eru mikilvægar. Þær eru farnar að skila sér núna af því að vinna í þeim málum snýst ekki um átak heldur jafna og þétta vinnu sem þarf að halda vel áfram.

Ég tek undir það sem menn hafa komið inn á að hér er um framboðsvanda að ræða. Við erum að tala um að byggja hagkvæmar litlar íbúðir af réttri stærð, en þær er erfitt að byggja á dýru landi. Framboð á landi þarf því að vera í samræmi við það. Þar koma sveitarfélögin inn. Það er líka jákvætt að sjá að mörg sveitarfélög eru komin af stað. Vil ég benda t.d. á Akureyrarbæ þar sem hefur verið farið af stað með að byggja íbúðir samkvæmt almenna kerfinu. Nú skilst mér að námsmannaíbúðirnar séu komnar inn í kerfið. Þar eigum við von á töluvert miklum fjölda íbúða inn á markaðinn sem mun styrkja hann.

Þetta snýst náttúrlega allt um fjármögnun á verkefninu. Þetta þarf að stíga áfram. Ég er sammála því að við þurfum að halda þétt á þessu verkefni og halda áfram og nota þau góðu verkfæri sem við erum komin með í hendurnar núna og lögðum grunninn að á kjörtímabilinu 2013–2016. En allt getum við bætt og gert betur. Ég vona að við séum sammála um að auka tök ungs fólks á því að koma sér upp húsnæði og koma sér í öruggt skjól.