almenn hegningarlög.
Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna innilega þessu frumvarpi sem hefur nú öðru sinni verið lagt fram á hinu virðulega Alþingi. Þetta er að mati þeirrar sem hér stendur nauðsynleg réttarbót í íslensku samfélagi og nauðsynleg bragarbót á almennum hegningarlögum. Það er að mínu mati nauðsynlegt að skýra þetta ákvæði hegningarlaganna, 194. gr., af því að ég tel að það hafi ákveðin varnaðaráhrif út í samfélagið. Til að uppfæra tölurnar eru nú í dag, 19. desember, komin fram 182 mál á neyðarmóttöku Landspítala – háskólasjúkrahúss og eru þá ótalin öll þau mál sem berast inn á aðrar stofnanir, aðrar neyðarmóttökur um landið.
Eins og kom fram áðan í máli flutningsmanns er það svo að það er alltaf hluti þeirra sem leita á neyðarmóttökur eða þeirra sem verða fyrir svona ofbeldi sem geta ekki lýst neikvæðri afstöðu sinni til þess sem á dynur.
Í rannsókn Agnesar Gísladóttur, sálfræðings á neyðarmóttöku, kom í ljós að 60% þeirra sem til neyðarmóttöku Landspítala leituðu náðu að sýna með einhverju móti að þær voru algjörlega mótfallnar því sem átti sér stað, annaðhvort með orðum eða með því að reyna að streitast líkamlega á móti. Þetta sýnir að 40% þeirra sem þangað leituðu annaðhvort frusu eða gátu ekki vegna ástands lýst skoðun sinni á þeim verknaði sem átti sér stað. Það sýnir okkur þingheimi að þetta frumvarp er algjörlega nauðsynlegt.
Þegar ég hef verið að tala um dæmi þessa þá tek ég alltaf dæmið um húsbrot sem einnig er í almennum hegningarlögum. Ef hús er læst og þér hefur ekki verið boðið og þú ert ekki með lykil, ef þú gengur þangað inn þá er það húsbrot. Sá sem á húsið eða býr þar þarf ekki að sanna það að viðkomandi hafi ekki boðið þeim sem inn gekk inn fyrir. Þetta er alveg skýrt í lögunum. Það er alltaf húsbrot hafi þér ekki verið boðið inn og ert ekki með lykil. Alltaf. Ef þú heldur því fram að þér hafi verið boðið inn þá þarftu að færa sönnur fyrir því.
Þess vegna fagna ég þessu frumvarpi og mun með ánægju greiða því götu mína.