148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

almenn hegningarlög.

10. mál
[16:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og þau sem töluðu áðan fagna framkomu þessa frumvarps. Ég hef svo sem engu við það að bæta sem hv. flutningsmaður fór yfir, en því er öllu gerð ítarleg skil í greinargerð. Hins vegar langar mig til þess að slá á ótta sem ég hef heyrt, sérstaklega í einu útvarpsviðtali við annan þáverandi hv. þingmann um að hér sé verið að snúa við sönnunarbyrðinni einhvern veginn, þannig að héðan í frá þurfi fólk að fara að sanna sakleysi sitt. Þetta er misskilningur sem kemur stundum upp í umræðunni. Mér fannst rétt að taka aðeins til máls til þess að reyna að kveða niður þann misskilning.

Sem dæmi er hægt að ímynda sér mál þar sem tveir einstaklingar eru til staðar og eitthvað kynferðislegt hefur átt sér stað. Annar þeirra segir að þetta hafi ekki verið með samþykki, hinn segir: Ég vissi ekki betur en það hafi verið samþykki. Þá breytir það málinu þegar þetta frumvarp, ég segi þegar, er orðið að lögum, það breytir málinu í eðli sínu og spurningin hættir að vera: Varstu ekki alveg viss eða hvað? Spurningin er: Fékkstu ekki örugglega samþykki með einhverjum hætti? Ef svarið er: Nei, ég fékk ekki samþykki, þá er það brot. Það þýðir ekki að fólk þurfi að fara að sanna sakleysi sitt. Það getur ekki orðið þannig með svona einfaldri lagabreytingu, alla vega ekki með þessari lagabreytingu svo mikið er víst.

Mér finnst rosalega mikilvægt, sem kemur líka fram í greinargerð en mér finnst þess virði að vekja máls á, að þetta skýrir lagaákvæðið. Það er mikið vandamál. Það er reyndar sjálfstætt vandamál í mínum huga hversu óskýr almenn hegningarlög eru, hvað það er erfitt fyrir borgarann að lesa almenn hegningarlög og átta sig á því hver raunverulegu réttindi hans eru. Maður hefði haldið að þetta ákvæði ætti að vera nokkuð skýrt, en það er það ekki með hliðsjón af þessum breytingum, jákvæðu breytingum, sem hafa orðið í sambandi við kynfrelsi og rétt hverrar manneskju til að stjórna sinni kynhegðun án útskýringa eða án þess að þurfa að berjast eitthvað sérstaklega fyrir henni. Fólk hefur sitt kynfrelsi og á ekki að þurfa að réttlæta það eða útskýra.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti. Mig langaði bara sérstaklega að slá á þennan ótta sumra. Ég hef heyrt þetta í samfélaginu, ekki hér á þingi, því væntanlega hefur fólk lesið greinargerðina nógu vel til að hafa ekki þennan ótta, en hann er til í samfélaginu, kemur alltaf upp þegar svona breytingar ber á góma. Þær eru óþarfar. Þetta er óþarfaáhyggjur. Þetta er gott mál. Ég fullyrði að allt fólk sem les þetta mál og kynnir sér það til hlítar verður því sammála. Þess vegna segi ég aftur: Ég hlakka til þegar þetta mál verður fest í lög.