stimpilgjald.
Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013. Flutningsmenn frumvarpsins eru auk mín hv. þm. Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason, Páll Magnússon, Njáll Trausti Friðbertsson, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir og Brynjar Níelsson.
Í frumvarpinu er lagt til að 3.–7. mgr. 5. gr. laganna falli brott og að við við 6. gr. laganna, um skjöl undanþegin stimpilgjaldi, bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Skjöl er varða kaup einstaklings á íbúðarhúsnæði.
Með frumvarpinu er því lagt til að stimpilgjald vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði verði alfarið afnumið. Einstaklingum ber nú almennt að greiða 0,8% stimpilgjald vegna kaupa á íbúðarhúsnæði en er þó veittur helmingsafsláttur ef um er að ræða fyrstu kaup. Hér er því lagt til að gjaldið falli alfarið niður vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði og undanþága verði ekki bundin við fyrstu kaup.
Virðulegi forseti. Við þekkjum flest stöðuna á húsnæðismarkaðnum í dag, skort á húsnæði og þannig mætti áfram telja. Skýrustu dæmin um það eru hér í Reykjavík þar sem skortur á húsnæði, sem stafar m.a. af sinnuleysi borgaryfirvalda, hefur leitt til hærra íbúðaverðs og valdið ungu fólki vandræðum með að eignast sína fyrstu fasteign. Skortur á íbúðarhúsnæði hefur einnig leitt til þess að eldra fólk á erfiðara með að minnka við sig og þeir sem eru komnir með fullt hús af börnum eiga erfiðara með að stækka við sig. Við gætum væntanlega staðið hér í allan dag og rætt um fasteignamarkaðinn. Þar er ýmislegt sem þarf að gera og sumt á vegum stjórnvalda og annað á vegum einkaaðila. Eitt af því sem stjórnmálin geta þó gert er að minnka álögur og skatta. Afnám stimpilgjalda er vissulega skref í þá átt og fyrir því tala ég hér í dag.
Virðulegi forseti. Markmið frumvarpsins er að auðvelda fólki að eignast íbúðarhúsnæði en jafnframt að auka skilvirkni og flæði á markaðnum. Mikil þörf er á að auðvelda fólki eins og frekast er unnt að eignast sitt eigið íbúðarhúsnæði, einkum við þær aðstæður sem nú ríkja á húsnæðismarkaðnum.
Skattar og gjöld á fasteignaviðskipti hafa áhrif til hækkunar fasteignaverðs, draga úr framboði og rýra hlut kaupenda og seljenda. Af framangreindu má ætla að afnám stimpilgjalds af fasteignaviðskiptum muni auðvelda skilvirkni og verðmyndun á húsnæðismarkaði með tilheyrandi aukningu á framboði.
Við fasteignakaup greiða kaupendur húsnæðis eins og fyrr sagði 0,8% gjald í formi stimpilgjalds. Tökum dæmi. Fyrir 35 millj. kr. íbúð greiðir kaupandi tæpar 300 þús. kr. í aukaskatt, eða um 150 þús. kr. við fyrstu fasteign. Fyrir 75 millj. kr. húsnæði er gjaldið 600 þús. kr. og þannig mætti áfram telja. Það má öllum vera ljóst að skattgreiðsla upp á nokkur hundruð þúsund króna við fasteignakaup er hvorki réttlætanleg né sanngjörn. Hún er líka íþyngjandi fyrir einstaklinga sem eru að koma sér á húsnæðismarkaðinn. Það þekkja einstaklingar sem hafa keypt sér fasteign að hver króna telur fyrstu mánuðina. Að losna við eingreiðslu sem telur hundruð þúsunda er mikil búbót fyrir fjölskyldur og einstaklinga sér í lagi meðan fyrstu og þyngstu greiðslurnar eru á húsnæðinu. Það er einmitt þannig sem við þurfum að líta á þetta gjald sem kallast stimpilgjald en er í rauninni ekkert annað en aukaskattur sem lagður er á borgara landsins.
Herra forseti. Ætla má að ríkið verði af um milljarði kr. í tekjur falli gjaldið niður. Hér er því um beina skattalækkun að ræða.
Að því sögðu má ítreka að stjórnmálamenn geta ekki og mega ekki horfa eingöngu á hlutina frá sjónarhorni ríkisins. Þeir eru til sem súpa hveljur yfir tekjumissi ríkisins þegar hugmyndir um skattalækkanir líkt og þessar eru lagðar fram, sem gerist allt of sjaldan í þessum sal. En stjórnmálamenn eru ekki kjörnir til að gæta hagsmuna ríkisins öllum stundum heldur hagsmuna almennings. Stimpilgjaldið er tekið úr vösum almennings. Fyrir meginþorra almennings skipta þessar upphæðir verulegu máli við fyrstu íbúðakaup.
Það er aldrei óábyrgt að horfa á hlutina út frá sjónarhorni skattgreiðandans, í þessu tilviki aðallega ungs fólks sem er að koma sér þaki yfir höfuðið. Ég mun því hér eftir sem hingað til beita mér fyrir hagsmunum þeirra og legg því fram þetta frumvarp hér í dag. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu fari frumvarpið til efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr.