148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:19]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er um að ræða mjög mikilvægt mál. Það er tilvalið að fara þessa leið, að prófa þetta fyrst á sveitarstjórnarstiginu. Eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom inn á rétt áðan eru auðvitað rök með og á móti, en í stuttu máli tel ég að rökin séu einfaldlega fleiri með eins og kemur fram í greinargerð frumvarpsins.

Í fyrsta lagi er þetta lýðræðislegra, þ.e. veitir fleiri íbúum landsins tækifæri til lýðræðisþátttöku. Í öðru lagi eru líkur á því að þetta geti aukið kosningaþátttöku, en rannsóknir hafa sýnt að ungir kjósendur eru einmitt meðal þeirra áhugasömustu og með því að auka fjölda yngri kjósenda eru líkur á því að það geti einmitt hjálpað til. Í þriðja lagi eru líkur á því að fleiri og fjölbreyttari raddir komi inn í þjóðmálaumræðuna sem sömuleiðis eykur líkurnar á að nýjar og góðar hugmyndir komi fram í þjóðmálaumræðunni.

Auðvitað eru einhver áhyggjuefni sem hafa verið nefnd í umræðunni áður; ungt fólk er líklegra til þess að vera áhrifagjarnara, þau eru ekki nógu þroskuð til að kjósa og eru ekki nægjanlega upplýst til að kjósa. Reynsla mín af starfi með ungu fólki og samskiptum við það er hins vegar sú að ungt fólk í dag er almennt verulega vel upplýst með mjög ákveðnar skoðanir á hlutunum og hafa í mörgum tilfellum einmitt leitt umræðu hér á landi sem hefur orðið til mikilvægra umbreytinga á íslensku samfélagi. Ég held að það liggi bara tækifæri í þessu fyrir sveitarstjórnarmálin og vonandi í framhaldinu fyrir íslensk stjórnmál í heild.