148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langar til þess að vekja athygli á tveimur málum á þessum stutta tíma. Fyrst: Í dag er 1. umr. um fjáraukalög árið 2017. Samkvæmt lögum um opinber fjármál, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögum þessum.“

Ég fæ ekki séð að nokkuð af þeim atriðum sem lagt er fyrir í þessum fjáraukalögum uppfylli þau skilyrði og velti fyrir mér hvaða áhrif 25 milljarðar í viðbót á fjárlögin 2017 hafi á fjármálaáætlun og fjárlög 2018, því að stór hluti af því sem er að finna þarna er alls ekki tímabundið.

Ég sé ekki að gerð sé grein fyrir þeirri hækkun sérstaklega í fjárlögum 2018 og þá hvaða áhrif þetta samspil hafi.

Númer tvö: Málsmeðferð fjárlaga í ár er alger steypa. Það verður að segjast eins og er. Velferðarráðuneytið fékk t.d. hálftíma til að kynna velferðar- og félagsmálahluta fjárlaganna. 1/4 fjárlaganna á hálftíma. Hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir nefndi að heilbrigðisstofnanir hefðu fengið hálftíma. Það er ekki alveg rétt, þær fengu klukkutíma en þær voru fimm, það vantaði meira að segja eina. Það var því í rauninni klukkutíma deilt á fimm.

Í fjárlaganefnd fengu þau síðan tilkynningu í gær um að beðið væri eftir breytingartillögum frá ríkisstjórn við fjárlögin. Ég hélt einmitt að þingsetningu hefði verið frestað til þess að ríkisstjórnin gæti sett mark sitt á fjárlögin, en núna bíðum við eftir breytingartillögum því til viðbótar. Mér finnst það mjög áhugavert og ég bíð spenntur eftir að heyra hvað það verður. Við mátum það sem svo að það að leggja fram upprunalegu fjárlögin með breytingartillögum hefði verið tiltölulega ónákvæm 1. umr. fyrir fjárlögin í ár en við stöndum greinilega frammi fyrir því aftur.