148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

aðgerðir í húsnæðismálum.

[11:10]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra um stöðu mála á húsnæðismarkaði og fyrirhugaðar aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar til að bæta þar úr.

Það hefur mikið verið fjallað um, a.m.k. á undanförnu ári, þann gríðarlega skort sem er á húsnæðismarkaði um þessar mundir sem hefur haft þau áhrif hvað skýrust að húsnæðisverð hefur hækkað gríðarlega svo ekki verður lengur forðast að tala um verðbólu á fasteignamarkaði. Við höfum áður upplifað slíka tíma og vitum hættuna sem stafar af slíku ástandi til langframa. En það hefur auðvitað hvað alvarlegust áhrif að ungt fólk á mjög erfitt með að stíga fyrstu skref inn á fasteignamarkaðinn, hvort heldur sem er til leigu eða kaups, og auðvitað bitnar þetta skortástand hvað harðast á þeim tekjulægstu í samfélaginu. Þess vegna er mjög brýnt að stjórnvöld grípi til ákveðinna og metnaðarfyllri aðgerða til að ráða hér bót á.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er fjallað um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum, en ég verð að viðurkenna að líkt og með margt annað í þeim stjórnarsáttmála er það mjög loðið og óljóst orðað og eiginlega engin leið að átta sig á hvað stjórnvöld ætla nákvæmlega að gera. Það virðist vera með þennan lið líkt og annan að þarna koma þrír mjög ósamstiga flokkar saman í ríkisstjórn, koma hver sínum sérstöku áherslum inn í húsnæðissáttmálann og upp úr stendur eiginlega ekki neitt.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra aðeins nánar út í þessa sýn ríkisstjórnarinnar á aðgerðir í húsnæðismálum. Það er alveg ljóst að verulegan fjölda íbúða þarf til. Helstu greiningaraðilar, hvort sem horft er til Íbúðalánasjóðs, Samtaka atvinnulífsins eða Samtaka iðnaðarins sem hafa skoðað þessi mál um langt árabil, þeim ber saman um að fyrir það fyrsta koma færri íbúðir á markaðinn á komandi árum en áður var búist við, m.a. vegna þess að uppbyggingarverkefni í kringum þéttingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu taka lengri tíma en áður var ráðgert. Í öðru lagi að hér vanti nú þegar á bilinu tvö til fjögur þúsund íbúðir á markaðinn á punktinum í dag og sé horft til næstu þriggja ára vanti á bilinu átta til níu þúsund íbúðir bara á höfuðborgarsvæðinu.

Síðan eru þar til viðbótar sértæk vandamál á landsbyggðinni þegar kemur að uppbyggingu á svæðum sem eru að taka við sér í uppgangi efnahagslífsins í dag. Þar má horfa til áhrifa ferðaþjónustu, uppbyggingar stóriðju á Norðurlandi o.s.frv. þar sem fasteignamarkaður hefur verið að taka við sér, en byggingarkostnaður er enn þá langt yfir markaðsverði íbúðanna og því mjög erfitt að standa að uppbyggingu á slíkum svæðum, jafnvel orðið vart verulegs skorts.

Leigumarkaðurinn er síðan sjálfstætt vandamál. Við höfum séð í uppgangi ferðaþjónustunnar að þar hefur verið að mörgu leyti stjórnlaus vöxtur á svokölluðum Airbnb leiguíbúðum sem birtist m.a. í því að íbúum í miðborg Reykjavíkur er að fækka og þar af leiðandi tilheyrandi skortur á húsnæði sem þessu fylgir. Þarna er alveg ljóst að stjórnvöld verða með einhverjum hætti að grípa inn í og stýra líkt og er með aðra leyfisveitingu til atvinnustarfsemi. Þetta gengur auðvitað ekki. Hér eru fleiri nágrannar Reykjavíkur farnir að horfa til sömu þróunar að útleiga til ferðamanna sé raunverulega að ryðja íbúum út úr heilu hverfunum í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu almennt. Það væri fróðlegt að heyra sjónarmið ráðherra hvað þetta varðar.

Það sem ég kannski velti fyrir mér til að reyna að átta mig betur á því hvað það er raunverulega sem stjórnvöld ætla að gera horfandi til þess að síðasta ríkisstjórn setti fram sérstakan húsnæðissáttmála í samstarfi við öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og í samvinnu fjögurra ráðuneyta með 14 skilgreindum markmiðum á húsnæðismarkaði, sem ber lítið á í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.

Þá spyr ég í fyrsta lagi: Hvernig mun ríkisstjórnin beita sér fyrir lausn húsnæðisvandans?

Hvaða leiðir mun hún kynna til að gera ungu fólki auðveldara að kaupa fasteign?

Að síðustu: Hvernig sér ráðherra fram á að skapa meira gagnsæi á leigumarkaði, sem er eitt af þeim markmiðum sem skilgreind eru í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar?