148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

aðgerðir í húsnæðismálum.

[11:23]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir að hefja máls á þessu. Við ræddum þetta mál hér í þingsal fyrir nokkrum mánuðum þegar umræðan beindist að þáverandi ráðherra málaflokksins. Ég fagna því að við höldum áfram að ræða þessi mikilvægu mál.

Ég vil byrja á því að segja að það er einna mikilvægast að einstaklingar hafi val um það hvernig þeir kjósa að haga búsetu sinni, hvort sem þeir vilja leigja eða kaupa húsnæði. Raunverulegt valfrelsi er samt ekkert ef við hugum ekki að hvoru tveggja.

Stærsta vandamálið er, eins og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson kom hér að, að það er allt of lítið framboð. Það vantar fleiri íbúðir og sér í lagi þær minni sem bæði unga fólkið sækir í og líka þeir sem eldri eru og eru farnir að minnka við sig. Það gengur allt of hægt að bæta það, sérstaklega í Reykjavík. Hótel spretta upp hraðar en íbúðir og hundruð íbúða fara í leigu til ferðamanna og hverfa þannig af almennum leigumarkaði, sem eykur enn á skortinn.

Þetta hefur verið öllum ljóst í nokkur ár en lítið hefur gerst. Það á að vera hlutverk okkar stjórnmálamanna að ryðja hindrunum úr vegi einstaklinga þegar lóðir eru ekki afhentar og framboðið er of lítið, umfangsmikið og flókið bótakerfi verður íþyngjandi en ekki hjálplegt og kostnaðarsamar byggingarreglugerðir sömuleiðis, íþyngjandi lög um greiðslumat og óhófleg gjaldtaka sem hækkar aðeins verð á íbúðum. Það er ekki líklegt til árangurs.

Ég vona að hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra átti sig á því að afskipti ríkisins af fasteignamarkaðnum, t.d. í formi þessa flókna regluverks og umfangsmikillar gjaldheimtu og lóðaskorts, bitnar ekki aðeins á ungu fólki heldur öllum kynslóðum. Hugmyndaauðgi hins opinbera er gríðarlega mikil og það er engu líkara en að við vinnum skipulega að því að gera fólki erfitt fyrir að eignast eigið húsnæði. Ég held að við getum einfaldað regluverkið og minnkað gjaldtökuna og stigið þar með stórt skref í átt að því að auðvelda ungu fólki að eignast húsnæði við hæfi. Ég reyndi mitt með því að leggja hér fram frumvarp um afnám stimpilgjalda. Það væri gaman að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hann styður það að lækka hér skatta á einstaklinga til að auðvelda þeim að eignast sitt eigið húsnæði.