148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

aðgerðir í húsnæðismálum.

[11:36]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið er það því miður svo að staðan í húsnæðismálum á Íslandi er gríðarlega alvarleg og það er mikilvægt að halda því til haga, eins og hv. þm. Þórunn Egilsdóttir kom inn á, að það er svo á landinu öllu, ekki eingöngu á höfuðborgarsvæðinu þó að vandinn sé sannarlega ólíkur á milli svæða.

Það sem verra er, staða tekjulægri íbúa landsins á leigumarkaði er hreinlega hrikaleg. Staðreyndin er einfaldlega sú samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði að þriðji hver leigjandi borgar meira en helming af ráðstöfunartekjum sínum í leigu og fáir tekjulágir geta safnað sér sparifé og aðeins helmingur þeirra er með séreignarsparnað. Það er sérstaklega óheppilegt með tilliti til þess að það er einmitt sá hópur sem líklegastur er til að leigja sér húsnæði, þ.e. ungt fólk, námsmenn og öryrkjar. Í ofanálag ná húsnæðisbætur í dag aðeins til 42% leigjenda samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði.

Herra forseti. Staðan á húsnæðismarkaði er óásættanleg. Eins og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson kom inn á áðan hafa hækkanir á fasteignaverði tekið fram úr aukningu kaupmáttar og fólk sem er að reyna að komast inn á markaðinn kemst einfaldlega ekki að. Hins vegar er jákvætt að samkvæmt könnun sem framkvæmd var fyrir Íbúðalánasjóð og var kynnt í október er mikill áhugi á því að búa í öruggu leiguhúsnæði sem ekki er rekið í hagnaðarskyni og þar sem húsnæðiskostnaði er haldið í hófi. Það er því augljós lausn í boði fyrir hæstv. félagsmálaráðherra og stjórnarmeirihlutann, það er að styðja við þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar, sem var lögð fram fyrr í vikunni, um byggingu a.m.k. 5.000 leiguíbúða um land allt svo fljótt sem auðið er. Það er langskynsamlegasta leiðin til að leggja grunn að traustum leigumarkaði til framtíðar.