148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

kyrrsetning, lögbann o.fl.

63. mál
[11:55]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir fyrsta forgangsmáli okkar Pírata, sem er lagt fram til að bregðast við þeirri fordæmalausu stöðu að framkvæmdarvaldið á Íslandi setti lögbann á umfjöllun fjölmiðils um æðsta handhafa framkvæmdarvaldsins á Íslandi rétt fyrir kosningar. Það gerðist í lýðræðisríkinu Íslandi og er til háborinnar skammar.

Til þess að bregðast við þeirri stöðu höfum við Píratar lagt fram frumvarp sem breytir lögum um kyrrsetningu, lögbann og fleira í þá veru að í stað þess að sýslumaður, fulltrúi framkvæmdarvaldsins, taki fyrir lögbannskröfur á hendur umfjöllun fjölmiðla muni dómarar taka að sér það hlutverk, enda geti þeir betur vegið og metið þau mikilsverðu mannréttindi sem eru í húfi þegar setja á lögbann á tjáningu en framkvæmdarvaldið, eins og komið hefur í ljós.

Svo ég skýri afstöðu okkar aðeins frekar ber okkur Íslendingum skylda til að vernda tjáningarfrelsið. Fjölmiðlafrelsið er einn af mikilvægustu þáttum þeirra réttinda, þ.e. tjáningarfrelsisins. Án tjáningarfrelsisins höfum við hvorki virkt lýðræði né alvörulýðræði, hvorki hér né annars staðar. Tjáningarfrelsið er verndað með 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem við erum aðilar að og 73. gr. stjórnarskrárinnar. Okkur ber skylda til að tryggja með sem bestum hætti að það verði ekki skert að óþörfu og ekki með jafn stórkostlega alvarlegum hætti og gert var þegar lögbann var sett á umfjöllun Stundarinnar um fjármálaviðskipti hæstv. fjármálaráðherra, þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar.

Til þess að skerða megi tjáningarfrelsi hefur mannréttindadómstóll Evrópu gefið út tilmæli um ákveðin skilyrði, þ.e. gefið út margítrekaða dóma um ákveðin skilyrði sem uppfylla þarf svo hægt sé að segja að skerðing á þessum mikilsverðu réttindum sé lögmæt eða í samræmi við skuldbindingar okkar eða annarra ríkja sem aðild eiga að þeim mikilvæga samningi. Til þess að skerða megi málfrelsi eða tjáningarfrelsi þurfa þrjú skilyrði að vera uppfyllt: Í fyrsta lagi þarf skerðingin að vera bundin lögum, þ.e. það þurfa að vera einhvers konar lög sem heimila skerðingu á tjáningarfrelsi borgaranna. Dæmi um lög af því tagi eru lög gegn meiðyrðum sem skerða tjáningarfrelsi til að vernda æru manna.

Í öðru lagi þurfa lögin sem skerða tjáningarfrelsi að vera sett í lögmætum tilgangi. Þeir „tilgangar“, ef svo má að orði komast, sem teljast lögmætir eru taldir upp í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þar er m.a. að finna þau sjónarmið að setja megi slík lög til að vernda æru manna eða leyndarmál ríkisins eða til að vernda hagsmuni barna. Það eru ýmsar lögmætar aðstæður til að skerða tjáningarfrelsi fólks. Hægt er að setja lög sem heimila skerðingu á tjáningarfrelsi.

Aftur á móti er þriðja skilyrðið það langmikilvægasta. Þar kemur fram mikilvægi þess að dómstólar taki þessi mál fyrir frekar en framkvæmdarvaldið. Þriðja skilyrðið er að skerðing á tjáningarfrelsi í hverju einasta einstaka tilviki fyrir sig verði að teljast nauðsynlegt í lýðræðisþjóðfélagi.

Herra forseti. Ég held því hér fram að það sé ekki nauðsynlegt heldur beinlínis stórhættulegt lýðræðisþjóðfélagi að setja lögbann á umfjöllun fjölmiðla tveimur vikum fyrir kosningar um fjármálaviðskipti þá hæstráðanda framkvæmdarvalds þjóðarinnar. Það er stórhættulegt lýðræðinu og langt frá því að vera nauðsynlegt í lýðræðisríki. Það er því augljóst að matið á hvort það skilyrði hafi verið uppfyllt þegar ákveðið var að setja lögbann á umfjöllun Stundarinnar um fjármálaviðskipti hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar í aðdraganda bankahrunsins 2008 fór ekki fram á skrifstofum sýslumannsembættisins.

Það kom reyndar líka bersýnilega í ljós á fundum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með sýslumanni þar sem hann var spurður sérstaklega út í hvort mat hefði farið fram á þessum þremur skilyrðum, hvort þessi skilyrði hefðu verið uppfyllt. Hann sagði svo ekki vera. Þegar sýslumaður var spurður hvort einhverjar sérstakar reglur giltu eða sérstök viðhorf þegar kæmi að því að setja lögbann á umfjöllun fjölmiðils fyrir fram var svarið nei.

Sérfræðingar ræddu við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um hvernig mætti breyta þessu fyrirkomulagi þannig að það kæmi ekki fyrir aftur að hægt væri að hefta tjáningu fjölmiðils — sem, nota bene, er enn í gildi og mun vera áfram í gildi fram yfir áramót, þ.e. fyrir fram skerðing á tjáningarfrelsi fjölmiðla, sem eru einn hornsteina lýðræðisins. Sérfræðingarnir sem sátu á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um þetta mál sögðu okkur að til þess að tryggja mætti betur þessi réttindi væri heillavænlegast að færa ákvörðunarvaldið hvað varðar lögbann á hendur fjölmiðlum um tjáningu þeirra, þ.e. um vinnu þeirra, til dómstóla, því að þar gæti þetta mat vissulega farið fram um hvort skilyrðum til skerðingar tjáningar væri fullnægt.

Við þessu höfum við Píratar brugðist og leggjum nú fram frumvarp sem breytir þeim lögum sem notuð voru til að setja lögbann á þennan fjölmiðil í þá veru að dómstólar þurfi að taka þetta fyrir. Ég geri þrjár mjög mikilvægar athugasemdir við þessa framkvæmd alla og þau lög sem voru fyrir. Ég tel t.d. ekki að hægt sé að horfa á það þannig að lög um lögbann séu lög sem talist geti vera í þeim lögmæta tilgangi sem talað er um að þurfi að vera til staðar í þessu samhengi, þ.e. þegar kemur að því að skerða tjáningu. Því breytum við í þá veru að dómstólar þurfi nú að taka afstöðu til þess hvort það samræmist stjórnarskránni og skuldbindingum okkar við mannréttindasáttmála Evrópu að setja lögbann á umfjöllun fjölmiðla áður en hún birtist.

Svo ég rýni aðeins í greinargerðina með frumvarpinu áður en tími minn rennur út, virðulegi forseti, þá ætla ég rétt aðeins að tæpa á því sem þar kemur fram. Með með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er lagt til að gerð verði breyting á lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, þess efnis að ekki verði unnt að leggja lögbann á miðlun fjölmiðla án undangengins úrskurðar héraðsdóms. Tilgangur frumvarpsins er að tryggja að ekki verði möguleiki fyrir gerðarbeiðanda lögbanns að stöðva miðlun fjölmiðils á efni án aðkomu dómstóla.“

Þ.e. dómstólar þurfa að koma að málum svo setja megi lögbann á umfjöllun fjölmiðla.

„Samkvæmt frumvarpinu munu gerðarbeiðendur í slíkum málum þurfa að höfða mál á hendur þeim sem þeir telja að hafi brotið eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti þeirra með athöfnum sínum.“

Í greinargerð með frumvarpinu förum við yfir mikilvægi tjáningarfrelsisins, við förum yfir þau skilyrði sem ég fór yfir núna rétt í þessu. Við ræðum mikilvægi þess að frumvarpið sé samþykkt.

Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kom fram mjög víðtæk samstaða þeirra sem þar sátu, þótt mögulega hafi hún ekki verið meðal allra, en alla vega virtist meiri hluti nefndarmanna sem sátu á þessum fundi vera sammála um að eitthvað þyrfti að gera til að bregðast við þessari fordæmalausu stöðu.

Svo ég ítreki þá fordæmalausu stöðu er hér lögbann í gildi gegn umfjöllun fjölmiðils um æðsta handhafa ríkisvaldsins, æðsta handhafa framkvæmdarvaldsins á Íslandi. Það er enn þá í gildi. Það var sett af handhafa framkvæmdarvaldsins á hendur fjórða valdinu sem á að veita okkur aðhald, og þá sérstaklega framkvæmdarvaldinu. Það kalla ég stórhættulegt, ólýðræðislegt og til skammar. Ég hvet allan þingheim til að vera með mér í að breyta þessu fyrirkomulagi svo það komi aldrei fyrir aftur hér.