148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

kyrrsetning, lögbann o.fl.

63. mál
[12:15]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég, öfugt við þá sem hafa talað hér, get ekki fagnað þessu frumvarpi. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að þetta er sennilega eitthvert hið alvitlausasta frumvarp sem ég hef séð mjög lengi. Kannski kemur það engum á óvart.

Það er þannig í lögum að tjáningarfrelsi er skert. Við vitum að það skarast oft við önnur mikilvæg réttindi. Það er löggjafans að meta hvar tjáningarfrelsi er skert og að meta almannahagsmuni í því. Þegar það er gert er það Alþingi sem gerir það og metur.

Lögbann er réttarfarshagræði þar sem lögin eru skýr. Lögin eru skýr um takmarkanir á tjáningarfrelsi í þessu tilviki sem um er að ræða og þetta mál snýst allt saman um, en við getum alltaf deilt um hvort löggjafinn hafi farið út fyrir stjórnarskrána, stjórnarskrárvarinn rétt fólks. Það er dómstóla að meta það.

Það hefur enga þýðingu, eins og þetta frumvarp hér er, að dómstólar fari að ákveða lögbann eftir að hafa fjallað um stjórnarskrána og tekist á um hana í marga mánuði. Því að þá er tjónið orðið. Þá hefur lögbann enga þýðingu lengur. Þess vegna hefur þetta frumvarp enga þýðingu. Þegar tjáningarfrelsi er takmarkað í lögum gildir það um alla í samfélaginu, líka fjölmiðla.

Svo er skerðingin ekki meiri en svo að þegar búið er að fjalla um málið fyrir dómi og menn meta það sem svo að þarna hafi tjáningarfrelsi verið skert … (Gripið fram í: Eftir kosningar.) Þetta frumvarp tekur ekki bara til kosninga í framtíðinni, sko. Þetta er galið frumvarp, hv. þingmaður. Þannig að frelsið er ekki takmarkað meira en svo að ef dómstólar komast síðan að því að lögbannið eigi ekki stoð þá fer bara þessi umfjöllun fram. (Gripið fram í: … er ósammála þér.) Já, það getur vel verið að einhver sé ósammála mér. En þetta er svona alls staðar. Það dettur engum í hug í þessum stóra heimi að leggja fram slíka vitleysu og þetta. (Gripið fram í: ... ósammála þér.) Já, við getum verið ósammála eða sammála um (Forseti hringir.) tjáningarfrelsi og hversu vel það er varið. (Gripið fram í: Það er rétt.) En svona frumvarp er tóm della.