148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

kyrrsetning, lögbann o.fl.

63. mál
[12:24]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Herra forseti. Ég vil að lokum þakka fyrir þá umræðu sem farið hefur fram og þakka þann stuðning sem þessu frumvarpi hefur verið sýndur og líka fyrir þær ábendingar og þá andstöðu sem frumvarpið hefur mætt.

Ég vil í ljósi þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram drepa á nokkrum atriðum sem fram koma í greinargerðinni með þessu frumvarpi og varða athugasemdir hv. þm. Brynjars Níelssonar og einfaldlega lesa upp úr greinargerðinni áður en ég mæli fyrir því að þetta ágæta frumvarp okkar Pírata fari til nefndar. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram, með leyfi forseta:

„Frelsi fjölmiðla er ein besta leið almennings til þess að uppgötva og mynda sér skoðun á hugmyndum stjórnmálamanna enda er frelsi fjölmiðla eitt af grundvallarskilyrðum lýðræðislegs samfélags. Mannréttindadómstóll Evrópu sér enda sérstaka ástæðu til þess að verja pólitíska umræðu í fjölmiðlum sérstaklega sem mikilvægan og órjúfanlegan þátt tjáningarfrelsisins sem verndaður er í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. […]

Meðal mismunandi takmarkana á tjáningarfrelsi metur dómstóllinn ritskoðun fyrir birtingu þá hættulegustu, þar sem hún stöðvar flæði upplýsinga og hugmynda til þeirra sem langar að móttaka þær. Þetta er ástæða þess að aðgerðir sem gripið er til fyrir birtingu, svo sem útgáfa starfsleyfa fyrir fjölmiðlafólk, skoðun greina af yfirvöldum fyrir birtingu eða lögbann við útgáfu skuli sæta ýtrustu takmörkunum að mati dómstólsins. Jafnvel þótt aðeins sé um tímabundin úrræði að ræða geta þau dregið stöðugt úr gildi upplýsinganna. […]

Þetta er sérstaklega mikilvægt í málefnum fjölmiðla því að fréttir eru kvikar og tafir á útgáfu, jafnvel aðeins í stuttan tíma, geta vel rýrt eða eyðilagt gildi þeirra og áhuga almennings.“

Það þýðir ekki að hér eigi að vera í gangi lögbann í þrjá mánuði, herra forseti, án þess að fjölmiðill megi tjá sig um fjármál núverandi fjármálaráðherra, þáverandi hæstv. forsætisráðherra, á jafn breiðum grunni og þetta lögbann ber vitni um. Það kom mjög skýrt fram á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með sýslumanni að hann tekur ekki tillit til þessara ýtrustu krafna sem Mannréttindadómstóllinn setur varðandi skerðingu tjáningarfrelsisins, sérstaklega þegar kemur að fjölmiðlum. Hann tekur ekkert tillit til þeirra. Þá er nú vel að setja það í hendurnar á dómstólum sem þó hafa fengið að læra nokkrar lexíur um vernd tjáningarfrelsisins á Íslandi og eru farnir að gera það ágætlega, oftast nær, þykir mér, eftir kannski nokkra slætti á handarbökin frá Mannréttindadómstóli Evrópu.

Það er því mitt eindregna mat að þetta frumvarp sé til bóta, að dómstólar sem núna hafa nokkuð góða reglu á því hvernig eigi að vernda tjáningarfrelsi og fjölmiðlafrelsi taki að sér að meta hvort það sé réttmætt í lýðræðislegu þjóðfélagi að skerða tjáningu fjölmiðla.

Að lokum legg ég til, virðulegi forseti, að þetta mál fari til allsherjar- og menntamálanefndar.