148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[13:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt við þetta frumvarp að athuga en sökum styttri tíma í andsvörum ætla ég að einbeita mér að einu atriði og spyrja þá um fleiri í ræðu á eftir. Í lið 7.18 um auknar heimildir á að ganga til samninga við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins um afhendingu á þeim stöðugleikaeignum sem Lindarhvoll ehf. hefur haft til umsýslu og teljast ekki heppilegar til sölu á almennum markaði, gegn lækkun á lífeyrisskuldbindingum ríkissjóðs við B-deild sjóðsins.

Þetta þýðir í raun að ef stöðugleikaeignir eru afhentar B-deildinni þá næst ekki að selja þær á ásættanlegu verði. Það skerðir að lokum lífeyrisréttindi þeirra lífeyrisþega sem þar eiga undir af því að sjóðurinn nær ekki að fjármagna og ríkissjóður þarf að hlaupa undir bagga. Ef eignirnar seljast á hærra verði tekur ríkissjóður hagnaðinn til baka þannig að áhættan af þessu lendir á lífeyrisþegunum og sem sagt ríkissjóði. Ég geri alvarlega athugasemd við orðalag þessarar greinar og velti fyrir mér hvort það sé eðlilegt að þetta sé núna í fjáraukalögum því að ég sé ekki að neitt ótímabundið, ófyrirséð eða eitthvað svoleiðis ákvæði eigi við þetta.