148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[14:07]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það væri hægur leikur að bæta úr því, að gefa þinginu einfaldlega skýrslu um ráðstöfun varasjóðs og standa þannig skil á ráðstöfun hans. En vandinn er auðvitað sá sami. Það er alveg rétt að við stóðum okkur enn verr hér á árum áður, en þetta er samt ekki nægilega góður árangur. Lögum um opinber fjármál var ætlað að bæta þann árangur. Þetta er í raun í fyrsta skipti sem við erum að vinna eftir þeirri löggjöf og það gefur ekki nægilega góð fyrirheit, ef maður á að segja eins og er.

Það sem er líka áhyggjuefni er að frá 2010 höfum við farið 3% fram úr fjárlögum í fjáraukalögum en 7% fram úr í heildina, þegar ríkisreikningur er birtur. Þess vegna óttast maður að niðurstaðan kunni enn og aftur að verða sú sama.

Ég sakna þess líka, og kem kannski nánar að því í ræðu minni um fjáraukalögin, að það er afskaplega lítil grein gerð fyrir ófyrirsjáanleika eða óhjákvæmileika þeirra útgjalda sem hér er sótt heimild fyrir.