148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[14:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi Mosfellsbæ þá þykja sanngirnisrök mæla með því að aðilar í því máli sem hafa deilt um fjárkröfu og sættu sig við að hún færi dómstólaleiðina yrðu ásáttir um, þegar niðurstaða var fengin, að samningsvextir myndu gilda en ekki dráttarvextir fyrir þann tíma sem ósamið var. Þetta er auðvitað matsatriði enda þarf að ræða það sérstaklega hér. Ég er ekki með tölurnar hjá mér þannig að ég treysti mér til að rekja þær.

Síðan er það varðandi Laugarvatn. Það er sérstök og sjálfstæð heimild í lögum til að semja við sveitarfélög um kaup án auglýsingar. Ég tel að í því tilviki hafi tekist alveg sérstaklega vel til. Það eru sjónarmið sem oft hefur verið byggt á um að ganga til samninga við sveitarfélögin í stað þess að fara á almennan markað. (Forseti hringir.) Þarna eru eins og upp er talið í ákvæðinu sérstök mannvirki sem bærinn hyggst nýta, þ.e. halda áfram notkun á þótt hann ætli ekki að taka þau í not sjálfur.