148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[14:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér eru nokkur góð atriði, t.d. varðandi varasjóðina. Þá byrjar fagráðherra á því að tilkynna um stöðuna og hvaða aðgerðir hann hyggist grípa til. Það dettur síðan væntanlega inn í fjármálaráðuneytið eða þá almenna varasjóðinn sem kemur til kasta fjárlaganefndar og mögulega Alþingis ef sérstakan fjárauka þarf til, ellegar getur það stoppað á almenna varasjóðnum þar sem það er útskýrt.

Varðandi skýrslu um stöðuna þá var hún afskaplega þunn, verð ég að segja. Þar sem talað er um að fara fram úr í lyfjum og þróun öryrkja og aldraðra þá fengum við strax í upphafi árs að vita að verið væri að fara fram úr í lyfjum og upphæðin sýnist mér standast. Á þeim tímapunkti var ekki gerð grein fyrir því til hvaða aðgerða ætti að grípa. Á þeim tímapunkti var ekki útskýrt hvernig grípa ætti til almenns varasjóðs til þess að koma til móts við það. Á þeim tímapunkti þegar orðið er víst að farið verði fram úr heimildum ætti að grípa til fjárauka, en ekki eftir á, eins og virðist vera að gerast núna, við viljum ekki eftirágjörning. Við viljum leita heimildanna fyrir fram því að samkvæmt stjórnarskránni má ekki greiða út neitt gjald nema til þess sé heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ef búið er að stofna til skuldbindinga áður en búið er að samþykkja fjáraukalögin er það einfaldlega stjórnarskrárbrot.

Ég spyr því aftur, af því að mér finnst það rosalega mikilvæg spurning: Er búið að stofna til einhverra skuldbindinga sem verið er að reyna að sækja fjárheimildir fyrir þarna?