148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[14:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála þeirri kröfu sem hv. þingmaður hefur hér uppi um að við beitum í hófi fjáraukalögunum og reynum að fylgja anda laganna með fjárheimildatillögum í fjáraukalagafrumvörpum en það er í raun og veru ekki hægt að taka þessa umræðu án þess að renna yfir stóru línurnar. Ég er sammála því að 24 milljarðar er auðvitað gríðarlega há fjárhæð en þegar um þriðjungur af þeirri fjárhæð skýrist af uppkaupum á skuldabréfaflokkum sem þegar voru útgefnir og eru í raun og veru ekki nýjar skuldbindingar, erum við búin að taka þriðjunginn til hliðar.

Þegar við horfum síðan á annað er þetta fyrir mér í raun og veru orðin spurning um hvort það voru gerð mistök við fjárlagagerðina. Það er ekki hægt að líta fram hjá því að fjárlög eru upp að vissu marki áætlun um útgjöld á grundvelli lögbundinna réttinda sem við höfum tryggt fólki. Almannatryggingar eru augljósasta dæmið. Hvort eigum við að skrifa það á lausatök í fjáraukalagagerð eða vanáætlun við gerð fjárlaga t.d. að við skyldum enda með margra milljarða umframútgjöld á árinu 2017 vegna almannatrygginga? Við vanáætluðum bæði kostnaðinn við breytingar á réttindum og fjölgun öryrkja á árinu 2017. Sömuleiðis má spyrja með lyfin.

Mér finnst ekki vera mörg góð dæmi um það í þessu fjáraukalagafrumvarpi að það séu hreinlega lausatök í ríkisfjármálunum. En það er þangað sem við ættum að beina sjónum okkar. (Forseti hringir.) Síðan er hægt að takast á um öll þau atriði sem hv. þingmaður nefndi.