148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[14:55]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég fór yfir svo mörg dæmi í yfirferð minni, frábær dæmi að mínu mati, um einmitt lausatök í áætlanagerð, öll þessi tilvik sem ég tiltók hér áðan sem ættu ekki heima í fjáraukalögum heldur annaðhvort í fjárlögum 2017, hefðu átt að vera sett inn þar, eða ættu einfaldlega heima í fjárlagafrumvarpi fyrir 2018 sem mun taka gildi eftir bókstaflega tíu daga. Það voru svo mörg dæmi. Mér fannst dæmin sem ég tók ekki einu sinni á gráu svæði. Svo getur verið slatti af dæmum á gráu svæði.

Ég ætla að skilja hæstv. ráðherra þannig að hann muni aldrei aftur standa að 25 milljarða kr. fjáraukalagafrumvarpi nema eitthvað sérstaklega ófyrirséð, tímabundið og óhjákvæmilegt komi upp. Ég vona að hann fari með þessi skilaboð þingheims til síns ráðuneytis og það er mikilvægt að við í þinginu sendum skýr skilaboð, ekki bara til hæstv. fjármálaráðherra heldur allra ráðherra, um að þessi blessuðu ráðuneyti verði að standa sig betur í áætlanagerð. Það er bara nýr veruleiki sem þau starfa eftir, veruleiki laga um opinber fjármál. Þess vegna skiptir máli að við tökum þessa umræðu hér. Við höfum verið að kalla eftir breyttu vinnulagi, bættri áætlanagerð. Við viljum burt með þessi fjáraukalög. Þau eru barn síns tíma, nema um sé að ræða eitthvað sem er nákvæmlega tímabundið, ófyrirséð og óhjákvæmilegt. Öll þessi skilyrði þurfa að vera uppfyllt. Til þess eru þau hugsuð.

Ég vona að hæstv. ráðherra fari með þau skilaboð inn í sitt ráðuneyti og við þurfum ekki að horfa upp á svona frumvarp aftur.