148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[15:25]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að ef útgjöld eru vanáætluð í fjárlagagerðinni þá er viðbúið að við því þurfi að bregðast með einhverjum hætti og sum þeirra eru einmitt þess eðlis eins og útgjöld til almannatrygginga að það er alveg augljóst að þar verður ekki auðveldlega skorið niður á móti. Ef fjölgun í hópi ellilífeyrisþega er meiri en gert var ráð fyrir þá er einfaldlega skuldbinding um að greiða lögbundin réttindi. Það sama á við um öryrkja.

Ég get alveg skilið vandann sem menn standa frammi fyrir þegar lyfjakostnaður reynist miklu hærri en áætlað var. Ég held að ekkert okkar vilji neita fólki um nauðsynleg lyf. En það breytir því ekki hins vegar og ég ítreka orð mín um að það er einmitt ástæðan fyrir því að það á að beita varasjóðnum fyrst. Þegar framkvæmdarvaldið tæmir varasjóðinn sinn verður kannski gerð betri áætlun í fjárlagavinnunni á hverjum tíma. Það er kannski aðhaldið sem verið er að leita eftir, að varasjóðurinn sé ekki geymdur eins og sparibaukur fram á síðustu stundu.

Varðandi forsendur á þessum síðustu vikum og fram undan á næstu mánuðum, t.d. varðandi kjarasamningagerð, þá er auðvitað gert ráð fyrir ákveðnum verðlagsforsendum fyrir árið í heild, þar með talið samningsbundnum hækkunum. Hér er því ekki um annað að ræða en að þær hafa ekki komið til framkvæmda enn þá og það ætti að hafa verið gert ráð fyrir þeim í fjárlögum þannig að þar ættu vissulega ekki að vera óvæntir liðir á ferðinni.

Ég ítreka að ég fagna því mjög t.d. þegar verið er að greiða upp skuldir, sérstaklega jafn óhagstæð lán og hér um ræðir, hraðar en þurfti og finnst sjálfsagt að þingið taki slík mál til afgreiðslu í fjárauka. En ég set veruleg spurningarmerki við margt af hinu. Ég óttast að hér séum við enn og aftur að horfa á að verið sé að læða ýmsu með á síðustu metrunum sem hefði með réttu átt að heita breytingartillaga við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar fyrir árið 2018.