148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[15:34]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Stutta svarið er já, ég geri skýran greinarmun þarna á milli af þeim sökum að hér er verið að greiða niður skuldir hraðar en ráð var fyrir gert. Það eykur svigrúm okkar fram veginn varðandi hin vaxandi útgjöld til velferðarkerfisins, sem er alveg fyrirsjáanlegt að mun halda áfram að vaxa. Við þurfum að gæta aðhalds þar líka. Með lýðfræðilegri þróun, öldrun þjóðarinnar o.s.frv., er alveg ljóst að alltaf verða gerðar meiri og meiri kröfur til félagsþjónustunnar og heilbrigðiskerfisins og þar af leiðandi verður aukinn kostnaður þar. Ég tel fullkomlega réttlætanlegt og raunar æskilegt að þegar tækifæri skapast til að greiða skuldir hraðar niður með tilheyrandi vaxtasparnaði inn í framtíðina sé það tækifæri nýtt.

Í þessu tilfelli sérstaklega má hafa það í huga að hér er um að ræða erlendar skuldir ríkissjóðs fyrst og fremst. Gengið er okkur hagstætt núna til þess að greiða þær upp. Þær stóðu réttara sagt allar á mjög háum vaxtakjörum, þannig að þetta voru með okkar dýrustu lánum. Ég tel það því mjög eðlilegt þegar stjórnvöld sjá tækifæri til að greiða upp slíkar skuldir og hafa svigrúm til að það sé gert. Þó svo að það kosti aukin útgjöld á því ári sem það er gert er alveg ljóst að í því felst skýr og klár útgjaldasparnaður á árunum á eftir. Það er ekkert annað en fyrirframgreiðsla þeirra vaxta sem þarna eru undir. Þess vegna finnst mér algjörlega forsvaranlegt og raunar æskilegt að það sé gert og stjórnvöld leiti þá heimilda þingsins í fjárauka til þess að fá leyfi fyrir þeim auknu vaxtaútgjöldum.