148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[15:36]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er pínulítið hissa á þessu svari vegna þess að í mínum huga myndu lyfin einmitt nýtast til þess að lækna fólk hraðar en annars væri. Það gæti sparað okkur töluverðan kostnað í heilbrigðiskerfinu síðar. Og ef við lögum vegina gæti það komið í veg fyrir einhver slys sem myndu þá spara okkur bæði í heilbrigðiskerfinu og annars staðar.

Í rauninni erum við þarna komin út í vangaveltur um það hvað telst vera æskilegt í heimspekilegum umræðum um óhjákvæmileika. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að laga vegina, en ég held að það sé ekki óhjákvæmilegt að stofna til nýrra ríkisskulda, sem er það sem gert hefur verið hér í þeim tilgangi og þeirri vegferð að lækka ríkisskuldir. Það er hið besta mál að kaupa upp þessar skuldir og greiða þær niður, eins og gert hefur verið upp að því marki sem fjárlög og fjárheimildir leyfa. Við höfum verið með töluvert betri útkomu úr ríkissjóði núna en áður. En það er ekki alveg augljóst að við hefðum endilega þurft að fara 8,1 milljarð fram yfir og 100.000 kr. betur. Ef við hefðum lagt aðeins minni áherslu á að kaupa upp skuldir og halda okkur innan þess ramma hefði það ekki verið óhjákvæmilegt. Ég átta mig bara ekki á forgangsröðuninni.