148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[15:38]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Eitthvað finnst mér hv. þingmaður hafa misskilið forgangsröðun mína í ríkisútgjöldum. Ég lýsi ekki þessum tveimur hlutum, auknum útgjöldum til lyfjakaupa eða uppgreiðslu skulda sem einhverju andstæðu vali. Þvert á móti. Hér er staðan bara mjög einföld, sér í lagi varðandi uppgreiðslu fyrra skuldabréfsins, dollaraskuldabréfsins sem greitt var upp í sumar. Þá var til fjármagn í ríkissjóði sem setur það á umtalsvert lægri vexti en viðkomandi skuldir til þess að greiða þær upp. Gengisstaðan var hagstæð til þess að greiða það upp. Þá finnst mér það bara vera hrein og klár almenn skynsemi og mjög æskilegt, raunar líka í hagstjórnarlegu tilliti, að nýta þann tímapunkt þegar svona mikið og sterkt innflæði er af gjaldeyri inn í landið að ríkissjóður noti það svigrúm til þess að hraða niðurgreiðslu á erlendum skuldum sínum. Það eykur á jafnvægið í hagkerfinu og er skýr og klár almenn skynsemi. Fjármagnið var til, það var ekki vandamálið.

Ég samþykki það fullkomlega að komið sé með slíka útgjaldaheimild inn í fjáraukalög, en það er ekki andstætt vali við aðrar útgjaldaákvarðanir ríkissjóðs heldur þvert móti er bara verið að segja: Þetta er skynsamlegt. Spörum okkur tíma til lengri tíma litið. Lækkum verulega vaxtakostnaðinn okkar. Við erum hvort eð er með þessa peninga á talsvert lægri vöxtum á einhverjum innlánsreikningum í Seðlabanka í dag.

Í mínum huga er ég alls ekki að gera uppgreiðslu skulda mikilvægari en t.d. vegagerð og lyfjakaup. Þvert á móti segi ég: Sparnaðurinn sem þetta leiðir af sér inn í framtíðina eykur svigrúm okkar til framkvæmda í vegakerfinu eða til umbóta í velferðarkerfinu.