148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[15:40]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara mjög djúpt ofan í frumvarp til fjáraukalaga þar sem aðrir þingmenn hafa gert því nokkuð góð skil. Það eru þó nokkur atriði sem ég ræddi um við hv. þm. Þorstein Víglundsson rétt áðan sem tengjast fjármagnskostnaði og þeim 8,1 milljarði aukalega sem varið er í það. Það er ekki endilega óhjákvæmilegt að fara í þá aukningu. Keyptur var hluti útgefins láns, sem var 877 millj. bandaríkjadollara virði, svo var bætt við 31 millj. bandaríkjadollara í kjölfarið í október. Þá eru eftir, ef ég misreikna mig ekki, um 91 millj. kr. bandaríkjadollara til eða frá, sem eru eftirstöðvar skuldarinnar.

Mér hefði þótt eðlilegt að aðeins minna fé hefði farið í þessi uppkaup til þess að við héldumst innan rammans um opinber fjármál. Þó svo að það sé mjög æskilegt að lækka vaxtagjöld — og ég er fullkomlega sammála rökum hv. þm. Þorsteins Víglundssonar varðandi það að þetta bæti stöðu ríkisfjármála til lengri tíma — er það samt ekki heimilað innan ramma um opinber fjármál. Við gætum kannski bætt við inn í lög um opinber fjármál orðinu „æskilegt“; ef eitthvað telst nægilega æskilegt skulum við heimila það í fjáraukalögum.

Það vekur engu að síður aðra spurningu hjá mér sem mér þætti áhugavert að fá svar við frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Í þessari niðurgreiðslu og svo með nýju láni upp á 500 millj. evrur sem tekið var í byrjun desember, sem er um 61,6 milljarðar kr., er í rauninni verið að minnka vaxtabyrði ríkissjóðs töluvert mikið, sem er alveg frábært. En að sama skapi hækkar það í raun skuldir ríkissjóðs að einhverju leyti. Það er algjörlega í samræmi við það sem ég hef hvatt til í langan tíma, en áherslan virðist alltaf frekar hafa verið á að borga niður skuldirnar óháð því hvaða vaxtaábati yrði af því.

Mig langar til þess að forvitnast um hvort það sé til marks um að nú sé það að lækka vaxtabyrði ríkissjóðs kannski orðið að aðalatriðinu, sem er bara frábært og ég myndi bara fagna því, eða hvort þetta er einhver önnur nálgun sem ég átta mig ekki alveg á í samhengi við þessar 500 millj. evrur.

Fram kom í máli hv. þm. Þorsteins Víglundssonar að nú væri gengið mjög hagstætt til þess að greiða niður erlendar skuldir. En nú er gengið einmitt alveg sérlega óhagstætt til þess að stofna til nýrra erlendra skulda. Því er forvitnilegt að fá að vita hvers vegna ákveðið var að taka lán í evrum frekar en að gefa hreinlega út skuldabréf í íslenskum krónum, sem hefði væntanlega borið hærri vexti vegna þess að við erum föst í hávaxtastefnu hér á landi. Það hefði þó þá ótvíræðu kosti að skapa okkur ekki gengisáhættu.

Allt þetta helst svolítið í hendur vegna þess að nú horfum við fram á það í fjáraukalagafrumvarpinu að nú eiga sér stað miklar breytingar á ríkisskuldum. Ég fylgist mjög náið með þróun þeirra inni á hinum frábæra vef lanamal.is. Þessar breytingar eru einhvern veginn ekki alveg eins og ég hefði búist við. Ég á til að mynda erfitt með að skilja hvernig það endar í 8,1 milljarði umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlögum samhliða því að vaxtagjöld ríkissjóðs lækka um 4,079 milljarða kr.

Ég get ímyndað mér hvernig þetta virkar, en það væri gott hreinlega að fá að heyra hvernig þetta liggur og hvernig þetta er sett saman.

Að lokum langar mig að nefna eitt sem fram kom í máli hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar áðan varðandi greininguna. Nú hefur verið ansi mikið tilefni til þess að kvarta yfir gæðum greiningarlíkana á bæði útgjöldum og tekjum og gangi hagkerfisins almennt. Við erum í rauninni bara með eitt greiningarlíkan fyrir hagkerfið í heild. Það tekur ekki tillit til tilvistar ríkisfjármála og ríkisútgjalda, sem er ákveðinn galli þegar við erum að tala um svo stóran hluta af heildarhagkerfinu, að breytingar þar endurspeglist ekki með fullnægjandi hætti í greiningarlíkaninu. Mig langar til þess að nota tækifærið til að hvetja til þess að farið verði í þá vinnu í fjármálaráðuneytinu að smíða betri líkön sem verði almennt aðgengileg okkur þingmönnum og jafnvel almenningi, og hafa þar með jafnvel aðeins betra spágildi en það líkan sem fyrir er. Það er raunveruleiki að það er erfitt að spá fyrir um útgjöld, það er erfitt að spá fyrir um framtíðina. Það er nánast ógerningur. Með því að vera með nægilega fullkomin líkön getum við alla vega reynt að nálgast raunveruleikann aðeins betur og vonandi með meira forspárgildi og jafnvel einhvern tímann endað á ári þar sem ekkert fjáraukafrumvarp þarf að koma fram, sem eru kannski draumórar af minni hálfu. En við sjáum til.