148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[15:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Örstutt um lánamálin. Við höfum gefið út skuldabréfaflokk í dollurum. Þeir sem héldu á þeim bréfum áttu rétt á að fá vaxtagreiðslur á næstu árum. Með því að bjóðast til þess að kaupa upp bréfin þarf í raun og veru að greiða strax vextina sem hefðu fallið til á næstu árum og þannig kemur til þessi mikla gjaldfærsla á árinu 2107. Það er engin sérstök uppgreiðsluheimild í bréfunum heldur eru þau í raun og veru keypt í heilu til baka.

Ég veit ekki hvort gengið sé eitthvað sérstaklega hagstætt eða ekki til þess að greiða upp erlendar skuldir, en það er hins vegar rétt sem kom fram hjá hv. þm. Þorsteini Víglundssyni, það hefur verið töluvert gjaldeyrisinnstreymi þannig að gjaldeyrisstaðan hefur verið ágæt.

Það má segja að við séum að leggja áherslu á tvennt, af því að spurt var um það, annars vegar á það hvort við leggjum kannski meiri áherslu á að lækka vaxtabyrðina en að laga skuldastöðuna. Ég held að við séum að leggja áherslu á hvort tveggja. Við horfum á skuldamarkmiðið sem er að halda skuldum ríkissjóðs undir 30%, þ.e. skuldum hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga. Við gerum grein fyrir því í fjármálastefnunni hvernig við sjáum skuldahlutföllin halda áfram að lækka niður fyrir 30% og í áttina að 20%. Það verður vaxtasparnaður, það er alveg rétt. Það er gríðarlega mikill ávinningur af því. En tilgangurinn með útgáfunni er ekki bara að spara vexti og greiða upp skuldir heldur er nýja útgáfan ætluð til þess að sýna að landið hefur traust. Við fáum markaðsaðgang. Við ryðjum brautina fyrir aðra stóra ríkisaðila eða íslenska aðila á einkamarkaði inn á markaðinn á góðum kjörum. Við tökum þarna lán sem við getum nýtt til að (Forseti hringir.) styrkja gjaldeyrisvaraforða þjóðarinnar.