148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[15:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta bara svo nátengd atriði. Eftir því sem maður skuldar meira eykst vaxtabyrðin. Það er almennt miðað við þau markaðskjör sem eru á hverjum tíma en hins vegar geta menn lækkað vaxtabyrði sína með endurfjármögnun. Við erum í raun akkúrat að gera það með erlenda lánið. Í erlenda láninu leggjum við ekki megináherslu á skuldalækkunina. Við leggjum megináherslu á betri vaxtakjör. Það á við um evrulánið. Í dollaraláninu drögum við hins vegar úr erlendri skuldsetningu. Þar erum við komin inn á hluti sem tengjast einfaldlega því hversu stóran gjaldeyrisforða við þurfum að byggja upp. Hversu mikið á ríkið að skuldsetja sig til að byggja upp slíkan forða? Það væri gaman að taka sérstaka umræðu um allt þetta.

Það má t.d. spyrja sig hvernig símtalið sem átti sér stað á sínum tíma og var birt fyrir ekki löngu síðan, á milli þáverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóra Íslands, hefði farið ef í Seðlabankanum hefði verið sá sjóður sem þar er núna. Hvaða ákvörðun má ætla að við hefðum fengið við þær aðstæður sem sköpuðust ef menn hefðu á þeim tíma haft úr 600 milljörðum að spila til að reyna að bjarga bönkunum?

Það er nefnilega ekki alveg sjálfgefið að það sé skynsamlegt að byggja upp endalaust stóran gjaldeyrisvaraforða nema það sé þeim mun skýrara í hvaða tilgangi megi mögulega ráðstafa honum.