148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Pólitíkin liggur nefnilega í skattkerfinu. Við jafnaðarmenn lítum ekki síður á mikilvægi jöfnunarhluta skattkerfisins en tekjuöflunarhlutverk þess. Það þarf að vega saman. Þess vegna gagnrýnum við harðlega að þau stýritæki sem stjórnvöld hafa til að vinna gegn ójöfnuði í samfélaginu séu ekki nýtt. Reyndar eru þau enn veikt og haldið áfram á þeirri braut sem tvær fyrri ríkisstjórnir hafa farið. Það er miður. Við munum leggja fram breytingartillögu til þess að reyna að reisa þessi jöfnunartæki við.

Ég vil spyrja hv. þingmann út í vörugjöld á bílaleigubílum. Núna eru bráðum að koma áramót, örfáir dagar. Þá áttu að taka gildi lög sem afnámu ívilnanir til bílaleigufyrirtækja. Fyrirtækin höfðu fengið að vita það með góðum fyrirvara og væntanlega búin að taka til greina þá lagabreytingu inn í rekstraráætlanir sínar. Hvað vakir þá fyrir hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarþingmönnum að leggja til að gefa enn afslátt af vörugjöldum til bílaleigufyrirtækja? Getur hv. þingmaður rökstutt þá ákvörðun? Má ekki leiða að því líkur að sú ákvörðun muni vinna gegn markmiðum um að vinna gegn loftslagsvánni? Að með því sé verið að ýta undir að hér verði fleiri bílar sem eru mengandi (Forseti hringir.) með því að gefa þennan afslátt. Þetta er ekki grænn skattur, þetta er andstæðan.