148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[16:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Að stórum hluta held ég að við hv. þingmaður séum samstiga í mati okkar á því hvað er skynsamlegt að gera og hvað ekki. Ég ætla bara að bæta aðeins við. Ég held að það sé rétt og óumdeilanlegt að við erum á toppi hagsveiflunnar, eins og hv. þingmaður benti á, og ég held að það sé einmitt skynsamlegt núna að fara að huga að því hvernig við getum slakað á og gefið efnahagslífinu vítamínsprautu, m.a. með því að draga úr skattheimtu, m.a. með því að lækka tekjuskatt í neðra þrepi, sem kemur auðvitað fyrst og fremst þeim sem eru með meðaltekjur og lægri til góða. Ég trúi því ekki að nokkur maður í þingsal sé á móti slíku.

Ég held líka að það sé mjög skynsamlegt að fara að huga að umfangsmiklum innviðafjárfestingum í samgöngum og öðru sem eru arðbærar. Við verðum að fara að gera þá kröfu að þær séu arðbærar. Ég held að það sé á hinn bóginn jafn óskynsamlegt að taka ákvörðun um að efna til rekstrarútgjalda sem við bindum okkur með til lengri tíma í núverandi sveiflu. Við tökum ákvörðun um það að óbreyttu að auka ríkisútgjöld á komandi ári, fyrir utan fjármagnstekjur, um 54 milljarða frá því sem áætlað er að útkoma verði á yfirstandandi ári. Það er alveg ótrúlegur vöxtur ríkistekna. Á sama tíma og við ræðum það og tökum ákvörðun um slíkan vöxt ríkisútgjalda hugum við ekki að því hvernig þessir fjármunir eru nýttir, hvaða þjónustu við fáum til baka. Við erum ekki með mælikvarðana til að mæla gæði (Forseti hringir.) þeirrar þjónustu sem við erum sammála um að við viljum að ríkið og við öll veitum sameiginlega.