148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað halda áfram smáandsvarasyrpu frá seinustu ræðu, hún var mjög skemmtileg. Ég legg sem sé fram þetta álit 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar við málið og vil byrja á að fara stuttlega yfir það. Ég ætla að reyna að þreyta fólk ekki mikið með nöldri yfir þessu en auðvitað er staðan sú að við erum í alveg hrikalegri tímaþröng og í raun tímaþröng sem fyrirbyggir að mínu mati að það sé hægt að ganga sómasamlega frá máli jafn stóru og þetta er. Ég held að það gildi um alla og það er auðvitað vegna aðstæðnanna sem við erum í, við fórum aftur í kosningar í október og aftur var þessi tímapressa nema enn verri en í fyrra. Mér finnst mikilvægt að við séum alveg meðvituð um það því að það er almenn tilhneiging á Alþingi til að flýta sér, að flýta öllum hlutum. Fólk vill gera hlutina strax og þá setur það gjarnan pressuna á aðra. Ég held að það sé sérstaklega mikil tilhneiging frá ríkisstjórn til minni hluta Alþingis að setja pressuna þangað og þá er rosalega lítill skilningur á þeim aðstæðum. Það er lítið gefið fyrir þá staðreynd að við höfum almennt of lítinn tíma á Alþingi til að standa vel að þeim verkefnum sem almenningur krefst af okkur að við stöndum okkur vel í.

Þetta er almennt óþolandi vandamál, í þetta sinn bjó ég við þann lúxus að bjóða mig fram til þessa starfs vitandi þetta fyrir fram en kvörtunin stendur og ég ítreka að ég álít þetta staðreyndir sem er engin ástæða til að þræta fyrir. Mér finnst hins vegar vanta að fólk horfist í augu við þær, viðurkenni vandann og lýsi sig reiðubúið til þess raunverulega að gera eitthvað til að mæta honum.

Núna eru aðstæðurnar enn verri en venjulega og það setur óhjákvæmilega mark sitt á þetta mál en ég held að tvær mínútur dugi í að tuða yfir þessu.

Fyrsti minni hluti getur auðvitað ekki tekið afstöðu til alls málsins eða þeirra hluta sem komu fram í því. 1. minni hluti getur ekki tekið afstöðu til allra þeirra atriða sem koma fram í umsögnum. Ég hef rennt yfir margar þeirra, nokkrar þeirra, ég veit ekki einu sinni hvaða orð ég á að nota, og fengið hjálp við að greina þær eitthvað en tíminn er einfaldlega ekki nægur þannig að þetta er ekki tilbúið á þessu stigi að mínu mati, svo sannarlega ekki af minni hálfu. Hins vegar eru hérna umræðuefni sem ég treysti mér til að gera tillögu við og ég ætla að fjalla aðeins um þær.

Í fyrsta lagi er það að í 14. tölulið bráðabirgðaákvæðis laga um almannatryggingar er tilgreint frítekjumark öryrkja vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar. Þetta frítekjumark er umtalsvert hærra en það er í lögunum sjálfum eins og þau eru skoðuð án tillits til bráðabirgðaákvæðis, margfalt hærra. Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki alveg söguna á bak við hvers vegna þetta frítekjumark er í bráðabirgðaákvæði. Ég geri fastlega ráð fyrir að tímaskortur hafi gert það að verkum og hef heyrt að enn og aftur sé endurskoðun í gangi sem eigi að taka tillit til þess. Burt séð frá ástæðunum heyrði ég kvartanir á sínum tíma, sem og í ár, frá öryrkjum í þeirri stöðu að þeir hafi áhyggjur af því að þetta verði ekki framlengt. Þeir hafa áhyggjur af þessu á hverju einasta ári og velta fyrir sér: Ætla stjórnmálamenn að hlusta á mig í þetta skiptið? Svarið við þeirri spurningu er venjulega: Nei. Það er óþarfi að vera sífellt að láta fólk velta fyrir sér hvort það verði fyrir þessum tekjumissi, á þessum árstíma í þokkabót, þannig að hér er lagt til að í stað þess að hafa þetta frítekjumark í bráðabirgðaákvæði verði það í lögunum sjálfum og bráðabirgðaákvæðið fellt út.

Ég nefndi þetta á nefndarfundi og þá var því svarað til að nú væri einhvers konar endurskoðun í gangi einhvers staðar. Gott og vel, það má vera en ég geri þá fastlega ráð fyrir að afurð þeirrar endurskoðunar geti alveg eins komið fram í þeirri tillögu að breyta lögunum eins og þau eru frekar en að afnema bráðabirgðaákvæðið. Ég sé ekki að það séu rök gegn því að gera þetta, þetta er engin efnisbreyting á lögunum sjálfum og enginn kostnaðarauki fyrir ríkissjóð eða kostnaðarbreyting að neinu leyti. Þetta er einfaldlega gert til þess að á næsta ári þurfi öryrkjar ekki að velta fyrir sér hvort þetta verði framlengt eða ekki, þeir geti gengið að því sem vísu þar til það er ákveðið sérstaklega að breyta þessu til baka.

Í öðru lagi leggur 1. minni hluti til afnám skerðinga ellilífeyris almannatrygginga vegna atvinnutekna. Nú er ég feginn að fá smáræðutíma sem mig vantaði fyrr í dag. Hinn ágæti Flokkur fólksins hefur lagt fram frumvarp sem er efnislega samhljóða og er það vel en ég ætla fyrst aðeins að fara yfir forsendurnar fyrir þessu. 25. október 2016 voru samþykktar allmiklar breytingar á ellilífeyrishluta almannatryggingakerfisins. Kerfið var einfaldað afskaplega mikið sem í sjálfu sér er jákvætt. Hátt flækjustig almannatryggingakerfisins er ein af rótum vandans að mínu mati. Það er erfitt fyrir fólk að átta sig á réttindum sínum. Ég held að stundum sé erfitt fyrir Tryggingastofnun að reikna þetta rétt. Það er erfitt fyrir okkur stjórnmálamenn að reyna að laga eitthvað þar sem það tekur langan tíma að komast inn í þetta. Sér í lagi ef maður hefur ekki persónulega reynslu af því að eiga við þetta kerfi er maður mjög lengi að átta sig á því hvernig það virkar og hreinlega lengi að trúa því hversu mikið óréttlætið er. Ég þurfti að heyra sömu setninguna aftur og aftur áður en ég skildi hana vegna þess að svona óréttlæti passar ekki alveg inn í hausinn á manni, eins og króna á móti krónu skerðingin. Það virkar svo vitfirrt að maður trúir því ekki að hún sé þarna en hún er þarna hjá öryrkjum. Hún var fjarlægð með þessari breytingu, sem eitt og sér er gott líka, þ.e. fyrir ellilífeyrisþega, ekki fyrir öryrkja. Skerðingin stendur enn fyrir öryrkjana.

Það voru misjafnar reglur fyrir misjafna tekjuflokka, misjafnar reglur fyrir atvinnutekjur, lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur á sínum tíma, með misjöfnum frítekjumörkum, misjöfnum skerðingarhlutföllum og hvaðeina. Þetta var einfaldað þannig að það var einfaldlega talað um tekjur, gallinn sá að í leiðinni var stungið upp á að frítekjumarkið yrði afnumið alfarið. Í upprunalega frumvarpinu sem varð síðar að lögum var ekkert frítekjumark skilgreint yfir höfuð. Það var byrjað að skerða 45% af fyrstu krónunni sem ellilífeyrisþegi myndi vinna sér inn óháð uppruna tekna.

Auðvitað tók fólk eftir þessu. Reyndar mælti þáverandi hæstv. ráðherra með því að nefndin skoðaði þetta sérstaklega. Hæstv. ráðherra áttaði sig alveg sjálfur á því að þetta þyrfti skoðunar við. Ég reiknaði út á sínum tíma að til þess að breytingarnar sem voru gerðar 2016 kæmu ekki með neinum hætti niður á atvinnutekjum fólks þyrfti 40.000 kr. frítekjumark yfir allt saman. Ég man ekki nákvæmlega hver talan var, 110.000–120.000, eitthvað svoleiðis, til að aðstaða einskis myndi versna við breytingarnar sem voru gerðar 2016. Kostnaðurinn við slíkar breytingar er ofboðslega mikill.

Við erum þó svo heppin að hafa hv. 11. þm. Reykv. s., Björn Leví Gunnarsson, og hann lagði fram fyrirspurn um hvernig kostnaður færi með afnám á skerðingum í almannatryggingakerfinu. Hann bað um sundurliðun og fékk mjög gott og ítarlegt svar sem gefur okkur góða leiðsögn um hvað hægt sé að gera hvar og fyrir hversu mikla peninga. Þar kemur fram, sem er mjög áhugavert, að það að hætta að skerða almannatryggingar alfarið er einfaldlega of dýrt, því miður. Þá erum við að tala um marga tugi milljarða, man ekki hvort það eru 45 eða 48 á ári, einhvers staðar á þeim skala. Óheyrilegt magn af peningum.

Hins vegar kom líka í ljós að afskaplega lítill hluti þessa var vegna atvinnutekna. Reyndar kom fram að hægt væri að hætta alfarið að skerða ellilífeyri almannatrygginga vegna atvinnutekna fyrir tæpa 2,5 milljarða á ári. Það er afskaplega lág tala í samhengi við almannatryggingar og sér í lagi í samhengi við fjárlög.

Ég held að það hafi verið 5,6 milljarðar eða svo ef öryrkjar hefðu verið teknir með en vegna þess að verið var að einfalda þetta kerfi á sínum tíma, og mér skilst að til standi að einfalda einnig öryrkjahlutann af almannatryggingakerfinu, hefur verið ákall um að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna aftur upp í það sem það var fyrir þessa breytingu, 109.000 kr.

Í þessu frumvarpi er stungið upp á að það verði 100.000, 9.000 kr. lægra en það var. Meðan ég man, eins og kom fram fyrr í dag, hafa 109.000 kr. verið óbreyttar í þó nokkuð langan tíma þannig að hlutfallslega miðað við verðbólgu er það mjög slakt líka. Burt séð frá því kemur einnig fram í fjárlagafrumvarpinu að útgjöld ríkissjóðs muni aukast við þetta 100.000 kr. frítekjumark um 1,1 milljarð. Þá er munurinn á því að hafa 100.000 kr. frítekjumark og að afnema skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna spottprís, 1,4 milljarðar á ári. Það er líka mjög lág upphæð, með þeim lægri sem maður sér í almannatryggingakerfinu.

Það eru nokkrar röksemdir fyrir því að gera þetta. Þetta virðist kannski róttæk hugmynd en hún er það ekki. Það kom fram í nefnd þegar við spurðumst fyrir um þetta að það hafi víst verið gert í nefnd í Noregi nú þegar. Ég hef ekki enn fengið það staðfest en okkur var sagt það í nefndinni. Eins og ég hef rakið hér er kostnaðurinn við þetta ekki áhyggjuefni fyrir ríkissjóð og það er þó nokkuð líklegur ávinningur. Kannski er erfitt að reikna fyrir fram hversu miklar tekjur ríkissjóður fengi á móti í skatttekjum með aukinni atvinnuþátttöku aldraðra, og kannski er erfitt að spá fyrir um hversu mikil sú aukning yrði. Ég veit það a.m.k. ekki. Ég veit hins vegar að árið 2007 var það skoðað. Á þeim tíma, athugið að það var undir öðru kerfi og öðru verðlagi, sögðust 29% eldri borgara myndu taka þátt í atvinnulífinu ef ekki væri fyrir skerðingarnar sem þá voru. Ég hygg að þessi tala hljóti að hafa hækkað síðan þá. Í fyrsta lagi hefur fjöldi eldri borgara aukist. Í öðru lagi held ég að það að hafa 25.000 kr. frítekjumarkið núna sé mun meira letjandi en kerfið var þá. Ég geri ráð fyrir því, hef svo sem ekki spurt neinn að því.

Þarna er hópur eldri borgara sem vill alveg taka þátt í atvinnulífinu en gerir það ekki vegna skerðinganna, skiljanlega að mínu mati. Atvinnuþátttaka snýst ekki bara um að ríkissjóður fái skatttekjur eða að eldri borgarar leggi eitthvað harðar að sér, hún snýst líka um að fólk hafi tækifæri til að taka þátt í mannlífinu. Atvinnuþátttaka er hluti af mannlífinu fyrir mjög margt fólk þannig að þetta snýst líka um hluti eins og heilsu og því um líkt.

Eins og kom fram í ágætri ræðu hv. 8. þm. Reykv. s., Ingu Sæland, hér fyrr í dag er vel hugsanlegt að ríkissjóður yrði einfaldlega ekki fyrir neinum kostnaðarauka af þessari breytingu. Það er bara vel hugsanlegt og núna er tækifæri til að mæla það. Við höfum þó nokkuð margar tölur í kringum þetta. Það er býsna vel haldið utan um upplýsingar um málaflokkinn. Ef við gerum þessa breytingu núna getum við mælt aukninguna á atvinnuþátttöku, mælt ýmsa hluti í kringum þetta og jafnvel gert frekari kannanir ef við svo kjósum þannig að ég lít á þetta sem tækifæri til að prófa nýjar hugmyndir.

Aukakostur við þessa aðferð er að hún einfaldar að mínu mati kerfið meira en að hækka frítekjumarkið í 100.000. Að hækka það upp í 100.000 fyrir einn tekjuflokk flækir það aftur, svolítið andstætt markmiðinu með setningu laganna í fyrra, en þótt ég hugsi að það flæki það eitthvað pínulítið að afnema frítekjumarkið er það aldrei þannig að það innihaldi flóknari reikninga. Ég myndi halda að í það minnsta einfaldaði það kerfið út frá þeim breytingum að hækka frítekjumarkið í 100.000. Jafnvel einfaldar það kerfið í heild sinni.

Ef skerðingarnar eru afnumdar hindrar það í þokkabót eða gerir í það minnsta yfirvöldum erfiðara að hringla með frítekjumarkið eða leyfa verðlagsþróun að draga hlutfallslega úr því miðað við aðrar tekjur. Það er nokkuð sem ég veit að öryrkjar hljóta að vera komnir með miklu meira en nóg af, það hvernig hringlað er með hlutina. Það veldur óöryggi, ófyrirsjáanleika og öllum afleiddum vandræðum sem af geta hlotist en ef skerðingarnar eru einfaldlega afnumdar þurfa yfirvöld að ganga miklu lengra til að setja aftur skerðingar á þennan tiltekna tekjuflokk. Það yrði væntanlega uppi hávær umræða og það yrði erfiðara en að skrúfa eitthvað smávegis, stokka upp eða láta verðlagsþróun éta það upp.

Það er gott að Flokkur fólksins hefur lagt þetta mál fram sem sjálfstætt frumvarp þótt það komi fram hér sem breytingartillaga. Við greiðum væntanlega atkvæði um þessa breytingartillögu fyrir helgi en þetta er atriði sem þarf miklu meiri umræðu. Ég held að fólki finnist þetta róttæk hugmynd en hún er það ekki. Ég bind vonir við að Flokkur fólksins fái sitt frumvarp samþykkt eftir nánari umræðu á Alþingi um þetta atriði því að þetta er svo einstakt tækifæri til að prófa nýja hluti sem kannski í fyrstu líta ekki út sem mjög skynsamlegar hugmyndir en eru það þegar betur er að gáð.

Í þessu samhengi verð ég að nefna eitt, þó án þess að ég vilji blanda skoðunum Flokks fólksins í það vegna þess að ég hreinlega þekki þær ekki á því tiltekna umræðuefni, borgaralaunum. Það er önnur hugmynd sem virðist oft mjög róttæk. Hún felur í sér að fólk fái einfaldlega skilyrðislaust greitt úr ríkissjóði. Ef það hljómar eins og brjáluð hugmynd er margt fólk sammála hv. áheyrendum. Það er verið að gera alls konar tilraunir í þessum efnum víða um heim og borgaralaun eru sér í lagi hugsuð sem einhvers konar undirbúningur fyrir framtíðina þegar vélarnar, tölvurnar, eru farnar að taka við það mörgum störfum að atvinnuþátttaka almennt verði bara frekar lítil.

Hér erum við með hóp, eldri borgara, þar sem atvinnuþátttaka er eðlilega lág. Við erum með miklar upplýsingar um kerfið sem við erum með núna og við getum mælt aukningu atvinnuþátttöku þar, við getum tekið einhvers konar skref í að prófa og sjá hvað gerist. Þetta er einnig tækifæri til þess.

Þetta eru algjör bónusrök með því sem á undan er sagt. Ég styð ekki þetta mál út af borgaralaunasjónarmiðum í sjálfu sér. Mér finnst bara vera hér vinkill sem á saman við það umræðuefni. Ég held að þetta sé hagnýtt fyrir þá umræðu en án alls tillits til borgaralauna held ég að þetta sé mjög skynsamleg breyting — enda er ég að leggja hana fram.

Ég held að ég hafi klárað þann þátt í bili. Þá þarf ég að fjalla hérna aðeins um fjármagnstekjuskatt. Í frumvarpinu er lagt til að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður úr 20% í 22%. Gott og vel, það hljómar ekkert sérstaklega brjálað. Á sama tíma og tilkynnt var um þessa fyrirætlan voru hins vegar einnig tilkynntar fyrirhugaðar breytingar á undirliggjandi fjármagnstekjuskattskerfinu sjálfu og þá sér í lagi hver skattstofninn yrði, hvort það yrðu nafnvextir eða raunvextir. Þar á er grundvallarmunur. Ég veit ekki alveg hversu miklum tíma ég á að verja í að útskýra muninn á því nákvæmlega. Ég hef lent í því sjálfur að hlusta á þingræður og skilja ekki hvað ræðumaðurinn er að segja en hann gæti útskýrt það í stuttu máli. Ég er ekki viss um að ég geti útskýrt það í fljótu bragði en ætla að reyna. Nafnvextir eru teknir af verðbótum líka. Þegar verðbólgan er há er fjármagnstekjuskattur af nafnvöxtum skattur af því sem bætist ofan á með verðbólgunni einni saman, þ.e. verðtryggingunni. Þegar um er að ræða raunvexti hins vegar — það er hægt að orða þetta óvarlega þannig að þetta sé einhvers konar verðtryggingarlausn fyrir fjármagnstekjuskatt. Eftir því sem ég kemst næst er sú hugmynd einsdæmi og ég ítreka bara að hún liggur ekki fyrir en hún hefur verið rædd og var rædd í nefndinni. Sennilega er það sú breyting sem var rædd hvað mest í nefndinni.

Þess vegna styður 1. minni hluti þessa hækkun en með þeim fyrirvara að auðvitað væri miklu betra ef við ræddum þetta allt saman. Það er skrýtið að vera að ræða 2 prósentustiga breytingu þegar sú prósentutala hlýtur að fara ofboðslega mikið, ef ekki alfarið, eftir því hvernig undirliggjandi skattkerfi er. Þegar rosalega róttækri kerfisbreytingu er í hálfkæringi kastað fram meðfram svona smáskrúfun á fjármagnstekjuskattsprósentunni þvælir það umræðunni svolítið mikið. Það er hugsanlegt að þessi tillaga komi aldrei til og þá erum við búin að eyða allmiklum tíma í að ræða hana án tilefnis og það eitt og sér er ákveðin tímasóun í versta falli.

Að því sögðu kallar 1. minni hluti eftir því að hæstv. fjármálaráðherra eða önnur öfl í ríkisstjórninni, hver sem þau eru, geri sínar fyrirætlanir skýrar sem fyrst vegna þess að það að hringla með þetta eins og hvað annað veldur í eðli sínu líka kostnaði. Breytingar á skattprósentunni sjálfri valda kostnaði í samfélaginu, hvað þá breytingar á því hvernig skatturinn er reiknaður. Allt þetta kostar. Breytingarnar sjálfar kosta, jafnvel þótt þær séu góðar. Það hefði farið betur á því að segja einfaldlega fyrir fram: Þetta er breytingin sem við ætlum að gera, hækka skattinn í 22%, og kannski er hægt að rífast um prósentuna sjálfa og frítekjumarkið sem er reyndar alveg náskylt hugtak og þarf þá líka að rökræða meðfram, breytingu sem ég styð, þ.e. að hækka frítekjumarkið.

Hvernig sem á það er litið væri betri bragur á því eins og maður segir hér á þingi ef þetta væri allt rætt saman þegar hugmyndirnar eru fullmótaðar og helst komnar niður á blað þannig að það sé eitthvað skriflegt til að ræða.

Að lokum ætla ég aðeins að fara út í álit meiri hlutans. 1. minni hluti styður með fyrirvara um frekari umræðu kafla úr meirihlutaáliti nefndarinnar um frítekjumark vaxtatekna, skattlagningu metanólbifreiða og skattalega hvata í þágu vistvænna almenningssamgangna, kaflann um Viðlagatryggingu Íslands, það var með mest sannfærandi skjölum sem ég hef lesið úr umsögnum, og síðan kaflann Annað sem varðaði aðallega tæknileg atriði eins og gildistökuákvæði og því um líkt. Það er engin ástæða til að ræða það sérstaklega.

Síðan styður 1. minni hluti í fljótu bragði tillögur Samfylkingarinnar með þeim fyrirvara að hafa ekki haft tíma til að setjast almennilega yfir þær en í fljótu bragði virka þær skynsamlegar og rökréttar.

Alveg að lokum geri ég einnig ráð fyrir því að fleiri breytingartillögur komi fram, hvort sem er frá þeim þingmanni sem hér stendur eða öðrum, enda hefur varla neinn teljandi tími fengist til að ræða þetta mál sökum aðstæðna og þess hvernig Alþingi almennt vinnur.