148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrri hlutann sem mér heyrðist meira vera meðsvar. Hvað varðar vaxtatekjurnar er þetta ástæðan fyrir því að fyrst þegar ég heyrði um þær hugmyndir að taka fjármagnstekjuskatt af raunvöxtum frekar en nafnvöxtum fannst mér það í fljótu bragði, eftir að hafa kynnt mér það pínulítið, frekar rökrétt vegna þessara áhrifa sem hv. þingmaður nefnir. Ef skatturinn er tekinn af nafnvöxtum eins og er núna og verðbólgan er há getur raunvirði innstæðunnar, ef við ímyndum okkur innstæðu á verðtryggðum reikningi, minnkað beinlínis vegna skatta. Það finnst mér mjög skrýtið. Mér finnst það vera það óþægilega við að nota nafnvexti sem skattstofn.

Eins og kom fram í nefndinni er aftur á móti ansi flókið að nota raunvextina sem skattstofn. Áður fyrr var notað eitthvað sem nú er dottið úr mér hvað var kallað, það var bókhaldsaðferð sem gerði ráð fyrir verðlagsbreytingum, og það þótti víst erlendum fjárfestum mjög skrýtið, alveg galið í raun og veru. Mér skildist í nefndinni að það þyrfti í raun að fara í einhverjar slíkar æfingar til að láta þetta ganga upp.

Ég ítreka að ég er ekki á móti verðtryggingu en mér finnst mikilvægt að það sé ekki skylda heldur val. Samt fylgja lausnum eins og verðtryggingarhugsuninni óheyrilegar flækjur. Það er það sem ég hef mest út á verðtryggingu á íbúðalán að setja. Þetta er svo flókið að lántakandinn skilur oftast ekki alveg nákvæmlega hvað hann er að gera og það er sjálfstætt vandamál. Ég hugsa að þetta sé mjög flókin breyting. Ég er ekkert viss um að það vegi endilega upp á móti þeim áhrifum sem hv. þingmaður nefnir. En áhrifin eru raunveruleg ef það verður til mikil verðbólga. Nú hef ég ekki meiri tíma til að fara nánar út í þetta (Forseti hringir.) en kem kannski nánar að því í seinna andsvari.