148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef lært það að þótt einhver klæðist jakkafötum og sé vel máli farinn er ekki víst að viðkomandi kunni að reikna allar þær tölur sem eru nefndar í samtalinu.

Hv. þingmaður spyr hvernig við viljum gera þessi borgaralaun. Stutta svarið er: Ég veit það ekki. Stefna Pírata fjallar um það að skoða þennan möguleika. Sömuleiðis höfum við áður lagt fram þingsályktunartillögu um að þetta verði kortlagt og skoðað. Hugmyndin er í sjálfu sér ekki raunhæf eins og staðan er í dag. Það yrði í raun og veru frekar einfalt að reikna borgaralaun þannig út að þau gætu haldið manneskju uppi en það er ekki raunhæft í dag miðað við tölur úr ríkissjóði og fólksfjölda. Það er ekki mjög erfitt að reikna það út í grófum dráttum. Hins vegar erum við frekar að hugsa það inn í framtíðina því að núna stöndum við frammi fyrir því að tölvur og tæki munu halda áfram að gera manneskjur óþarfar í alls konar vinnu sem þær hafa hingað til þótt algjörlega nauðsynlegar í. Dæmi eru þýðingar, túlkanir og þannig lagað, nokkuð sem fáum hefði dottið í hug fyrir tveimur eða þremur áratugum að yrði nokkurn tímann tími þar sem við þyrftum ekki manneskju holdi klædda til að sinna því starfi – en tæknin er að gera þetta. Hún er að taka yfir ótrúlegustu fög og það verður bara framhald á því.

Spáin er sú að atvinnuþátttaka verði í framtíðinni mjög lítil. Það er ekkert víst að sá spádómur gangi eftir, en ef hann gengur eftir er mjög mikilvægt að við höfum þegar kannað þessa kosti. Það er stefna okkar núna, að við séum núna stödd í fortíð framtíðarinnar og verðum að kanna kostina núna til að vita hvort þetta gangi upp í framtíðinni ef og þá þegar sú staða kemur upp.