148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:19]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ljúft og skylt að halda áfram með þessa umræðu. Eitt þykir mér alveg víst, fólk mun skapa hluti, fólk sem þarf ekki að vinna tekur samt að sér verkefni, það gerir alls konar hluti. Ég hugsa stundum til sjálfs mín, hvað ég myndi gera ef ég þyrfti ekki að vinna mér inn tekjur. Ég er forritari sjálfur þegar ég er ekki á þingi, nýt þess mjög mikils og hef verið alla mína fullorðinsævi og reyndar þorrann af unglingsárunum líka. Ef ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur, ef ég hefði t.d. borgaralaun myndi ég samt forrita. Ég myndi sennilega forrita alveg jafn mikið, hugsanlega meira, en ég myndi forrita hluti sem enginn myndi endilega vilja borga mér fyrir, það væri ekki beinlínis einn viðskiptavinur sem hefði einhverja tiltekna viðskiptalega hagsmuni af því. Ég myndi forrita hluti eins og kerfi til að auka við lýðræðið, kerfi til að greina opinber gögn og setja þau upp í falleg gröf með litum og svoleiðis. Ég myndi alltaf nýta krafta mína í eitthvað skapandi. Þetta er það sem fólk gerir í mínum iðnaði þegar það hefur það gott eða selur fyrirtæki sitt og hefur það gott eftir það. Fólk heldur áfram að gera eitthvað skapandi.

Eins og ég segi og ítreka eru þetta bónusrök ofan á hitt sem ég sagði í sambandi við afnám skerðinga á ellilífeyri almannatrygginga. Punkturinn er sá að þarna er fólk sem vill vinna og getur unnið, vitaskuld langt í frá allir eldri borgarar, en það er þarna hópur sem er fastur í þessu kerfi og „má ekki vinna“. Ég velti fyrir mér hvers konar sköpunarkraft við værum að leysa úr læðingi. Þarna er tækifæri til að prófa það á einn hátt á einum stað, dýfa tánni í vatnið, sjá hvað gerist. Það er ekkert víst að það klikki. Það er reyndar víst að það klikkar ekki vegna þess að upphæðin sem við þurfum til að prófa þetta, jafnvel þótt aukin atvinnuþátttaka eldri borgara yrði engin, er ekki það há að það borgi sig ekki að prófa.