148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[18:07]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði nú vonast til þess að hv. þingmaður myndi útskýra það hvernig hann teldi að hægt væri að samrýma það sem hann boðar hér þeirri stefnu sem hann hefur staðið fyrir og ítrekaði meira að segja í ræðu sinni áðan, en í staðinn getum við rætt um stefnu Miðflokksins, það er allt í lagi ef hv. þingmanni finnst það þægilegra við þessar aðstæður. Hún er mjög skýr. Stefna Miðflokksins í skattamálum eins og öðrum málum er skynsemisstefna. Þar byggjum við á skynsemishyggju en ekki einhverri forskrift úr bókum eða kennisetningum frjálshyggjumanna eða sósíalista. Þannig er hægt í hverju tilviki að meta aðstæður og hvað skili mestu í formi tekna ríkissjóðs og í hvötum um leið, hvar við náum besta jafnvæginu. Það má kannski segja að hlutir eins og Laffer-kúrfan sem hv. þingmaður þekkir vel nýtist við slíkt mat. Á einhverjum stað náum við hámörkun, hámörkun á heildarhagsmunum, heildaráhrifum, hámörkun á lífsgæðum almennings í landinu, hvort sem þau lífsgæði eru tryggð með því að hafa nægt fjármagn sem þarf til þess að standa undir þeirri heilbrigðisþjónustu sem við viljum sjá o.s.frv., eða hafa hvatana til verðmætasköpunar.

Það sem er best, herra forseti, í öllu og hv. þingmaður veit þetta, er að þetta þarf ekki að takast á. Við þurfum ekki að fórna endilega heilbrigðisþjónustu til þess að hafa hvatana. Eins og hv. þingmaður benti á í ræðu sinni: Ef vel er að verki staðið, ef við beitum skynsemishyggjunni í skattlagningu þá getur það orðið til þess að auka tekjur ríkisins þó að hlutfallið lækki. Það er sem sagt hægt að ná þessu á sama tíma, bæði þessum jákvæðu hvötum, og hámörkun tekna ríkissjóðs.