148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[18:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Með fullri virðingu fyrir hv. þingmanni þá er ég engu nær varðandi skattstefnu Miðflokksins nema hún er bara skynsemisstefna. Jú, jú, ég held að við öll í þingsalnum reynum að telja okkur sjálfum a.m.k. trú um það að við séum sæmilega skynsöm og okkar stefna sé skynsemisstefna. En látum það liggja milli hluta.

Ég er bara að spyrja einfaldra spurninga. Telur hv. þingmaður, t.d. ef við tölum um Laffer-kúrfuna, að skattprósenta fjármagnstekjuskatts eigi að vera töluvert lægri? Að við eigum að lækka hana niður í 10%? Ef ég fæ svar við slíkum spurningum þá getum við kannski átt samtalið áfram vegna þess að við eigum eftir að vinna þetta frumvarp áfram milli 2. og 3. umr. Mér finnst líka mikilvægt að fá að vita hver stefna Miðflokksins þegar kemur að skattalegum hvötum þegar við erum að reyna að hrinda í framkvæmd orkuskiptaáætlun sem var mikil samstaða um hér síðastliðið vor og var talið mjög mikilvægt að við myndum ná. Er það skynsemisstefna að beita slíkum skattalegum hvötum? Ef svo er, af hverju er þá óskynsamlegt að hækka kolefnisgjald t.d. um 50%?

Ég hef mína skoðun. Ég hef lýst þeim efasemdum. En ástæðan fyrir því að ég tel að hægt sé að gera þetta er sú að ég treysti því og trúi að við munum líka lækka skatta á komandi árum, m.a. neðsta þrep eða neðra þrep tekjuskattsins.

En aftur, herra forseti. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem ég virði mikils og er oftar sammála en ósammála, ég óska í einfeldni minni eftir svörum við einföldum spurningum: Hver á skattprósentan að vera í fjármagnstekjuskatti? Hvernig á tekjuskattskerfi einstaklinga að vera? (Forseti hringir.) Hvernig á það að spila saman við vaxtabætur og barnabætur? Hvernig á að beita eða (Forseti hringir.) á yfir höfuð að beita skattalegum hvötum þegar kemur að því að hrinda orkuskiptaáætlun í framkvæmd?