148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[18:16]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð bara að viðurkenna að þetta er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Ég tók eftir þessu sjálfur áðan þegar ég var að undirbúa mig fyrir ræðuna, að ég hefði kannski ekki orðað þetta alveg nógu vel. Ábending hans er hárrétt, en einnig sá skilningur sem hann bauð upp á í lokin. Það sem þarna er átt við er að þær aðstæður sem kölluðu á hækkun ákveðinna skatta, til að mynda sérstaklega tryggingagjaldsins, til að standa undir erfiðleikum í rekstri ríkisins og einkum og sér í lagi á vinnumarkaði væru ekki lengur til staðar heldur væri staða ríkisins þvert á móti orðin allt önnur og betri og réttlætti fyrir vikið ekki lengur þessa miklu hækkun sem kom til sögunnar til að takast á við vanda sem nú er hjá liðinn. Eins það sem hv. þingmaður nefnir sérstaklega með að við séum á toppi hagsveiflunnar eða rétt komin yfir toppinn, líklega, og farið að halla undan fæti. Það er líka rétt. Við þær aðstæður er að mínu mati æskilegt að stjórnvöld hlutist til um að mýkja lendinguna ef svo má segja.