148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[18:52]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta efh.- og viðskn. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að mér finnst þetta vera mjög óljóst. Það er svo sem ekki það eina sem mér finnst mjög óljóst í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, ég get ekki sagt annað. En það er æðimargt sem mætti endurskoða í skattkerfinu okkar. Þrátt fyrir að margt í okkar skattkerfi sé blessunarlega nokkuð einfalt í alþjóðlegum samanburði þá er líka margt sem mætti skerpa á og einfalda verulega umfram það sem nú er. Þar mætti taka t.d. þætti eins og hvernig við viljum stýra jöfnunarhlutverki skattkerfisins og gera það aðeins sveigjanlegra varðandi það jöfnunarhlutverk sem við ætlum því hverju sinni.

Núverandi kerfi er nokkuð stirt í þessum efnum. Tekist hefur verið á um það árum saman hvernig eigi að breyta því. Það er erfitt að hreyfa persónuafsláttinn vegna þess hversu kostnaðarsamt það er. En ég sé ekki að þessi ríkisstjórn ætli sér í neina slíka endurskoðun heldur boðar tiltölulega einfalda nálgun á að lækka bara lægri prósentuna, sem er góðra gjalda vert. En ég held að hægt væri að hanna slíkar skattbreytingar mun betur, t.d. til að styðja við tekjulægstu hópana í samfélaginu með því að ráðast samhliða því í einföldun kerfisins fyrir þá 15 milljarða sem það kostar að lækka lægri tekjuskattsprósentuna um 1% og væri hægt að gera ýmislegt til þess að styrkja jöfnunarhlutverk skattkerfisins frá því sem nú er sér í lagi einmitt gagnvart þessum allra lægstu tekjuhópum. Það kemur sér ekki bara vel fyrir fólk á vinnumarkaði, það kemur sér líka gríðarlega vel fyrir eldri borgara og öryrkja sem greiða tiltölulega háan skatt af mjög lágum tekjum.