148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

fjármálafyrirtæki.

46. mál
[20:01]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar á þskj. 74 um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Efnahags- og viðskiptanefnd stendur einhuga að því.

Tilgangur frumvarpsins er að framlengja bráðabirgðaheimild Fjármálaeftirlitsins til að grípa til sérstakra ráðstafana við ákveðnar aðstæður til að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Sambærileg heimild var upphaflega veitt Fjármálaeftirlitinu með neyðarlögunum svokölluðu frá árinu 2008, en saga þessa ákvæðis er rakin nánar í greinargerð frumvarpsins.

Gildandi ákvæði til bráðabirgða VI í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, fellur að óbreyttu úr gildi um komandi áramót. Við ákvörðun þess tímamarks var miðað við það að innleiðing tilskipunar 2014/59, svokölluð BRRD-tilskipun — þess má geta að við erum hægt og bítandi í efnahags- og viðskiptanefnd að læra allar þessar skammstafanir sem koma frá Evrópusambandinu og tilheyra fjármálakerfinu og regluverki þar í kring — yrði innleidd í íslenskan rétt fyrir lok þess tíma sem tilskipunin kveður á um og þar með væru komnar inn í íslensk lög álíka heimildir og þetta bráðabirgðaákvæði felur í sér. Það hefur hins vegar reynst viðameira verk fyrir Evrópusambandið og aðila innan Evrópska efnahagssvæðisins að innleiða þessa tilskipun og því er ljóst að framlengja þarf bráðabirgðaákvæðið. Nú er stefnt að því að ljúka innleiðingunni með tveimur frumvörpum sem verði lögð fram á yfirstandandi þingi og því næsta að því er segir í greinargerð.

Þess vegna er lagt til að gildistími þess ákvæðis sem um ræðir framlengist um þrjú ár, til 31. desember 2020.

Ég ætla að öðru leyti ekki að vitna í nefndarálitið en undir það skrifa Óli Björn Kárason, formaður og framsögumaður, Þorsteinn Víglundsson, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir.