148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

útlendingar.

7. mál
[20:17]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Mig langar til þess að taka til máls um þetta mál. Í fyrsta lagi, eins og frumvarpið liggur fyrir og hv. allsherjar- og menntamálanefnd styður í heild sinni, þá er hér um að ræða leiðréttingu á leiðum mistökum eða misskilningi sem varð þar sem iðnnám féll einhvern veginn milli skips og bryggju við síðustu endurskoðun.

Ég ætla ekki að ætla neinum neitt í því, en það er okkur áminning um að það er fleira nám en háskólanám og það er mikilvægt að við pössum upp á það. Við erum ágætlega stolt af iðnnámi okkar, a.m.k. tölum við gjarnan um að íslenskir iðnaðarmenn séu ágætir og vandvirkir og höfum talað um að þeir séu allra iðnaðarmanna bestir. Það er ágætt iðnnám hérna. Ég held að við eigum að vera stolt af því. Það er mjög gott ef fólk vill koma og læra hér.

Ég vil taka undir það sem framsögumaður nefndarinnar sagði um umræðuna í nefndinni, sem var ágæt. Sá sem hér stendur greip tækifærið þegar þetta mál var til meðferðar og hvatti nefndina til að skoða aðstöðumun sem gerður er eftir námi varðandi rétt barna til þess að fylgja foreldrum sínum. Það vakti athygli þegar málið var til umræðu. Undirritaður hafði gert sér vonir um að geta komið þessu í gegn. Svo varð ekki, en umræðurnar í nefndinni urðu mjög góðar og málefnalegar.

Ég vil þakka nefndarmönnum fyrir að taka þessa umræðu. Ég held að hún hafi verið mjög gagnleg, líka að því leyti að ég held að nefndarmenn, án þess að ég vilji gera mönnum of mikið upp, hafi almennt verið þeirrar skoðunar að þarna þyrfti að gera bragarbót í samræmi við það sem texti nefndarálitsins segir til um. Ég held að við höfum um leið komið þessum skilaboðum býsna ákveðið á framfæri með þessu áliti og svo sem í samtölum við gesti fyrir nefndina. Ég er sannfærður um að málið fær framgang fljótt og vel.

Ég trúi því og treysti að nefndin muni fylgja málinu eftir ef það verður dráttur á því. Að minnsta kosti mun sá sem hér stendur gera það.

Ég vil líka nota tækifærið, af því að þetta kemur almennt inn á rétt barna til þess að fylgja foreldrum sínum og alþjóðlegum skuldbindingum því tengdu, og minna á að við þingmenn Viðreisnar höfum lagt fram frumvarp um breytingu á útlendingalögum um rétt barna til þess að fylgja foreldrum hingað til lands sem hafa dvalarleyfi.

Þegar maður les þennan lagabálk er dálítið brotakennt hvernig því er farið og þarf að gera á því bragarbót.

Hitt er alveg rétt að þessi mál eru allflókin og þarf að vanda til verka. Það er ég viss um að við getum gert. Ég hef fulla trú á því að hv. allsherjar- og menntamálanefnd muni vinna ötullega að þessum málum og vera samstiga í þeim.