148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

útlendingar.

7. mál
[20:22]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég er skrifuð á nefndarálit allsherjar- og menntamálanefndar í þessu máli og styð því afgreiðslu þess með þeim hætti, en kaus að stíga hér upp til að koma kannski nokkrum punktum að í umræðunni áður en henni lýkur hvað varðar þessi blessuðu útlendingalög sem við erum alltaf að bútasauma hér og hvernig yrði best að því staðið.

Nú stendur til að setja þverpólitíska nefnd til að skoða hvort mögulega þurfi að endurskoða lögin. Ég held að þessi endalausi bútasaumur sýni okkur svo ekki verði um villst að það þurfi að endurskoða þau. Það er ekki spurning um að skoða hvort það þurfi kannski. Það er bara þannig.

Eitt sem við getum ekki skoðað, og það er nú það sem ég vildi kannski helst koma að hér af því að hérna hef ég alla vega tækifæri til að segja það, eitt sem við getum ekki endurskoðað, nema við förum að skoða hlutverk ráðherra gagnvart útlendingalögunum, sem mér finnst einmitt fullt tilefni til að þessi nefnd skoði, þ.e. valdheimildir ráðherra í þessum málaflokki. Kannski þyrftum við að fara að þrengja þær, alla vega þegar við horfum upp á ráðherra sem er tilbúinn að setja reglugerð sem skerðir framfærslu hælisleitenda og íhugar að svipta þá jólauppbótinni en hættir svo við. Í þeim tilfellum myndi ég halda að mögulega sé núverandi ráðherra ekki treystandi fyrir þeim valdheimildum sem hún hefur til að setja reglur um líf og afkomu hælisleitenda hér á landi.

Þegar þessi þverpólitíska vinna fer af stað og þessi bútasaumur verður vonandi eitthvað aðeins lagaður hjá okkur þá legg ég það til við hv. þingmenn að við skoðum líka hversu langt við viljum að vald ráðherra nái yfir lífi og heilsu flóttamanna og hvort við viljum ekki mögulega taka okkur aðeins meira vald en það að leyfa því að gerast að ráðherra geti með einu pennastriki svipt flóttamenn lífsviðurværinu á meðan þeir bíða þess að vera sendir úr landi. Spurning til að skilja eftir hérna á aðventunni.