148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

útlendingar.

7. mál
[20:24]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið erum við hér að leiðrétta mistök sem urðu við heildarendurskoðun útlendingalaga, sem var stórt og flókið verkefni. Þó að þau lög séu ný og sú heildarendurskoðun hafi verið gerð fyrir stuttu síðan eru nýju lögin nær því að vera eins og gamalt bútasaumsteppi sem var strengt á nýjan ramma. Undir liggja lög sem hafa þróast í áranna rás og hefur verið bætt við þau. Þau sjónarmið sem hér hafa komið fram varðandi börn og maka útlendinga sem fá hér dvalarleyfi eru gott dæmi um samræmingu sem aldrei hefur átt sér stað af því að þar er einn bútur um dvalarleyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar, þ.e. fólk sem fær að hafa með sér börn og maka, og annar bútur þar sem íþróttafélög fá að kalla til sín erlenda leikmenn og þeir fá dvalarleyfi sem nær yfir maka og börn. En svo eru aðrir hópar þar sem sú tiltekna lagagrein kemur af einhverjum öðrum ástæðum mögulega inn í lagasafnið, þá fylgir einhvern veginn ekki sami fríðindapakki því dvalarleyfi. Hér er nokkur vinna óunnin.

Í nefndarálitinu beinum við því til ráðuneytisins að taka saman og skoða hvernig væri hægt að stíga best til jarðar í þeim málum. Ég treysti því, eins og við tökum fram í nefndarálitinu, að það gerist hið fyrsta eftir áramót. Ég fagna því að við þm. Jón Steindór Valdimarsson munum ganga hönd í hönd inn í næsta ár og takast á við þetta verkefni og sauma saman þessa búta sem eru aðeins trosnaðir á nýja blindrammanum.