148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

dómstólar o.fl.

8. mál
[20:27]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla og fleiri lögum, setning og leyfi dómara, áfrýjun einkamála, lögmannsréttindi o.fl. Þetta er á þskj. 82.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Þorvald Heiðar Þorsteinsson frá dómsmálaráðuneyti, Benedikt Bogason frá dómstólasýslunni, Sigurð Tómas Magnússon frá réttarfarsnefnd, Áslaugu Björgvinsdóttur, Kolbrúnu Garðarsdóttur frá Félagi kvenna í lögmennsku, Stefán Andrew Svensson frá Lögmannafélagi Íslands og Ingibjörgu Þorsteinsdóttur frá Dómarafélagi Íslands.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um dómstóla, nr. 50/2016. Í fyrsta lagi er um að ræða tímabundna heimild til að setja dómara og varadómara við Hæstarétt, í öðru lagi tímabundna heimild ráðherra til að veita skipuðum dómara við Landsrétt leyfi ef sérstakar ástæður þykja til, í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi öflunar málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti og í fjórða lagi er að finna í frumvarpinu ákvæði sem skerpa á atriðum er varða kærur og áfrýjanir einkamála til Hæstaréttar og ákvæði er stuðla að aukinni hagkvæmni í störfum réttarins.

Með frumvarpinu er lagður til breytingar sem eru nauðsynlegar vegna þeirra breytinga sem felast í nýrri dómstólaskipan sem tekur gildi núna í ársbyrjun 2018.

Á fundum nefndarinnar var fjallað um reglur um setningu dómara og varadómara. Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að gagnsæi þyrfti að ríkja við setningu dómara sem og að gæta þyrfti jafnræðis og málefnalegra sjónarmiða. Einnig kom fram að stjórnvöld hafa fengið tilmæli frá alþjóðlegum stofnunum, svo sem Sameinuðu þjóðunum, um að grípa til sértækra aðgerða til að fjölga konum í Hæstarétti. Í skýrslu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna frá 30. júní 2015, UN resolution on Independence of judges and lawyers, er lögð rík áhersla á að kynjajafnvægi sé ein af forsendum sjálfstæðs og hlutlauss dómsvalds. Þá komu fram sjónarmið um hvort færa ætti þær tímabundnu heimildir um setningu dómara sem lagðar eru til í frumvarpinu til samræmis við ákvæði laga um dómstóla, nr. 50/2016, sem taka gildi núna um áramótin, og kveða á um að gæta þurfi að málefnalegum sjónarmiðum, gagnsæi og jafnræði við setningu dómara en fram kom að ákvæði frumvarpsins byggist að hluta til á eldri reglum vegna hagkvæmnissjónarmiða. Nefndin tekur undir mikilvægi þess að sjónarmið um að gagnsæi og jafnræði við setningu dómara eigi að vega þyngra en hagkvæmnissjónarmið. Nefndin leggur því til breytingar til að tryggja þetta gagnsæi og skilvirkni við setningu dómara í samræmi við það fyrirkomulag sem kveðið er á um í nýjum lögum um dómstóla, nr. 50/2016. Nefndin tekur fram að ákvæði frumvarpsins sem snýr að setningu varadómara er í samræmi við fyrirkomulagið sem kveðið er á um í hinum nýju lögum.

Í frumvarpinu er lögð til sérstök tímabundin heimild fyrir ráðherra til að veita dómara við Landsrétt leyfi ef sérstakar ástæður standa til þess, til allt að þriggja mánaða, óski dómari slíks leyfis fyrir 1. janúar 2018. Fram kom á fundi nefndarinnar að þar sem lög um millidómstig taka ekki gildi fyrr en í janúar 2018 hefur enginn, að óbreyttu, heimild til að veita dómara við Landsrétt þetta leyfi fram að þeim tíma og tekur nefndin undir nauðsyn þess að slík heimild sé til staðar til að bregðast við þeim aðstæðum.

Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að fella þyrfti brott tilvísun í 2. mgr. 198. gr. laga um meðferð sakamála í 6. mgr. g-liðar 68. gr. laga um breytingar á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála, nr. 49/2016, þ.e. um millidómstig, er varðar heimild til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar eftir að áfrýjunarfrestur er liðinn þar sem í 2. mgr. 198. gr. er kveðið á um skilyrði fyrir áfrýjun héraðsdóms til Landsréttar. Nefndin leggur því til að tilvísunin verði felld brott, m.a. til að gæta samræmis við lög um meðferð einkamála.

Til viðbótar framangreindum breytingartillögum leggur nefndin til breytingu sem kveður skýrt á um að eldri reglur um áfrýjunarfrest gildi hafi málsaðili áfrýjað héraðsdómi til Hæstaréttar fyrir 1. janúar 2018 og verður honum þá einungis áfrýjað, eða eftir atvikum gagnáfrýjað, af öðrum málsaðilum til Hæstaréttar.

Hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Nefndin öll leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. Við 4. gr.

a. Í stað orðanna „tillögu réttarins“ í 1. efnismálslið komi: tillögu nefndar samkvæmt III. kafla.

b. Á eftir 1. efnismálslið komi nýr málsliður, svohljóðandi: Settur dómari skal þá koma úr röðum fyrrverandi dómara en sé það ekki unnt þá úr röðum annarra sem fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr.

2. Á eftir 6. gr. komi ný grein, svohljóðandi:

Orðin „fullnægt skilyrðum 2. mgr. 198. gr. og“ í 6. mgr. g-liðar 68. gr. laganna falla brott.

3. Við 7. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Nú hefur einn málsaðila áfrýjað héraðsdómi til Hæstaréttar fyrir 1. janúar 2018 og verður honum þá einungis áfrýjað, eða eftir atvikum gagnáfrýjað, af öðrum málsaðilum til Hæstaréttar. Gildir þá áfrýjunarfrestur samkvæmt eldri lögum.

Undir þetta rita allir nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd, þ.e. sá sem hér stendur, Guðmundur Andri Thorsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Ármannsson, Jón Steindór Valdimarsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.