148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

dómstólar o.fl.

8. mál
[20:34]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Aftur kem ég hingað upp til þess að leggja nokkur orð í belg um nefndarálit sem ég er sannarlega samþykk, enda var komið til móts við allar mínar athugasemdir hvað varðar akkúrat þessa lagabreytingu. Þetta er líka annað dæmi um bútasaumslöggjöf sem við höfum verið að laga í þinginu. En öfugt við bútasaumslöggjöfina sem ég vísaði í í fyrri ræðu um útlendingamál stendur ekki til að stofna neina þverpólitíska nefnd um dómstólalögin. Þó tel ég vera alveg ágæta ástæðu til þess að skoða þau lög og almenn hegningarlög og almennt refsirammann sem við höfum hjá okkur og þær reglur allar saman. Ég tel fulla ástæðu til þess að skoða þau lög betur sem snúa að Landsrétti.

Nú erum við enn eina ferðina að laga lög og laga hluti í kringum Landsrétt og laga reglur í kringum skipanir við Landsrétt. Og enn og aftur fer ég að hugsa um hvort valdheimildir ráðherra séu endilega æskilegar í því tilfelli, þ.e. þó að það sé engin þverpólitísk nefnd um lög um dómstóla myndi ég gjarnan vilja hafa hana. Ég myndi vilja fara yfir hvort við ættum að veita dómsmálaráðherra heimild til þess að skipa dómara við Landsrétt, það hefur nú ekki gefist vel hingað til. En kannski er það einfaldlega af því að ég treysti ekki núverandi hæstv. dómsmálaráðherra fyrir því að skipa dómara í Landsrétt rétt eins og ég treysti ekki núverandi hæstv. dómsmálaráðherra til þess að huga vel að lífi og heilsu hælisleitenda. Kannski þarf ekki að breyta lögum um útlendinga og heimildum dómsmálaráðherra til þess að „víla og díla“ um líf flóttamanna, eða að breyta lögum um dómstóla og heimildum dómsmálaráðherra til þess að skipa dómara í Landsrétt. Mögulega þarf bara að breyta um dómsmálaráðherra.