148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

dómstólar o.fl.

8. mál
[20:37]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Það frumvarp sem hér um ræðir tekur á mjög afmörkuðum hluta dómsmálalaganna, í rauninni bara tæknilegum úrlausnarefnum, við standsetningu Landsréttar. Þær breytingar sem allsherjar- og menntamálanefnd leggur til snúa nánar tiltekið að því hvernig eigi að haga því að manna Hæstarétt í þeim önnum sem fyrirséðar eru meðan verið er að vinna niður verkefnahala sem verður til þar við að mál flytjist yfir til Landsréttar. Sá hali verður unninn niður á einu til einu og hálfu ári. Allan þann tíma verður á að giska einn dómari starfandi aukreitis við Hæstarétt þannig að það skiptir miklu máli sem nefndin leggur til, að við val á þeim dómurum, sem fá þar með mjög dýrmæta reynslu á ferilskrána, sé farið eftir sömu faglegu aðferðum og við skipan dómara almennt, þ.e. að farið sé í gegnum dómnefnd um hæfi dómara.

Það sem mig langar hins vegar að nefna er atriði sem við komum að í nefndarálitinu sem þetta mál snertir í rauninni ekki á, það er ekkert lagaákvæði um það, þ.e. kynjahlutföll í Hæstarétti. Ef til þess kemur að þessir afleysingadómarar, varadómarar, verði ekki valdir úr hópi fyrrverandi hæstaréttardómara þá er um að ræða að skipaðir verði tímabundið dómarar við Hæstarétt sem munu í framtíðinni hafa forskot við umsóknir um stöður hæstaréttardómara. Því ætla ég að vona að fólkið, sá hluti afleysingadómara sem ekki velst úr hópi fyrrverandi dómara, verði jafnt karlar og konur þannig að næst þegar opnast föst staða við Hæstarétt standi kvenkynsumsækjendur jafnfætis körlum þegar kemur að því að meta hæfnisskilyrði, þegar skoðuð verður reynsla af dómstörfum við Hæstarétt. Þannig gætum við jafnvel horft fram á bjartari tíð þar sem fólk þarf ekki að bíða í tvo áratugi á milli þess að kona er skipuð hæstaréttardómari.