148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

5. mál
[20:43]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Bergþór Ólason) (M):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997, með síðari breytingum. Þetta er á þingskjali 53.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Laufeyju Helgu Guðmundsdóttur og Hafstein Pálsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Sigrúnu Karlsdóttur frá Veðurstofu Íslands. Nefndinni barst jafnframt umsögn um málið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Tilgangur frumvarpsins er að framlengja gildistíma bráðabirgðaákvæðis II í lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997, sem heimilar notkun fjár úr ofanflóðasjóði til að taka þátt í greiðslu kostnaðar við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða. Núverandi heimild rennur út 31. desember 2017 en með frumvarpinu er lagt til að hún verði framlengd til 31. desember 2022.

Nefndin styður og sýnir skilning mikilvægi þeirra verkefna sem kostuð hafa verið eftir þeirri heimild sem hér stendur til að framlengja. Þó vill nefndin einnig benda á mikilvægi þeirra verkefna sem ofanflóðasjóði er ætlað að sinna lögum samkvæmt og leggur áherslu á að þau verkefni sitji ekki á hakanum vegna þessarar heimildar heldur verði fjárheimildum sjóðsins ráðstafað þannig að framgangur þeirra verka sé tryggður.

Rétt er að taka fram að hér er um dagsetningarmál að ræða svo það liggi fyrir.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að málið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta ritar sá sem hér stendur, Ari Trausti Guðmundsson, Hanna Katrín Friðriksson, Helga Vala Helgadóttir, Jón Gunnarsson, Karl Gauti Hjaltason, Líneik Anna Sævarsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Vilhjálmur Árnason.