148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

málefni fatlaðs fólks og aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

28. mál
[20:54]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Við höfum nú til 2. umr. brýnt og langþráð frumvarp þótt við séum einkum að fjalla um bráðabirgðaákvæði enn um sinn. Hér er um mannréttindamál að ræða sem mun stuðla að miklum breytingum í daglegu lífi þjónustuþega og gera mörgum kleift að hefja nýtt líf, öðlast frelsi og sjálfstæði. Þetta á að vísu við um þá sem verða svo lánsamir að fá samning um NPA, svokallað. Það verða ekki allir fyrsta kastið, því miður, en velferðarnefnd leggur til við fjárlaganefnd, félagsmálaráðherra og við ríkisstjórn að samningum verði fjölgað mjög hratt og að þeir verði ekki færri en 100 á árinu 2018, en við höfum væntingar um að hin nýju lög verði fljótt að veruleika.

Til þess að svo geti orðið þarf að bæta við að lágmarki 70 millj. kr. við verkefnið árið 2018, eins og fram kom hjá formanni velferðarnefndar fyrir stundu.

Mikil sátt er um að fella í skorður þjónustu við einstaklinga sem þurfa sólarhringsmeðferð í öndunarvél og að eyrnamerktir séu sérstaklega peningar í þennan þátt. Hér er um að ræða fyrst og fremst sérhæfða umönnun og hjúkrun sem hvílir af fjárhagslegum þunga á herðum sveitarfélaga fyrst og fremst, eins og kom fram hjá hv. framsögumanni.

Ég hvet og brýni stjórnvöld til að fallast á þær áherslur sem fram koma í nefndaráliti velferðarnefndar við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár. Síðan horfum við til framtíðar með það fyrir augum að notendastýrð persónuleg aðstoð verði meginform þjónustunnar við fatlað fólk. Væntingarnar eru auðvitað þær að svo verði sem fyrst og enn áréttað að innleiðingu NPA verði flýtt með kröftugum hætti og hraðar en bráðabirgðaákvæðið segir til um, þannig að faglegt mat sem gert var í ársbyrjun 2017 um þörfina fyrir samninga á árinu 2018 væri 136, að það náist fram eða tefjist ekki nema um skamma hríð.