148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við þingmenn höfum fengið ákaflega stuttan tíma til að vinna þetta frumvarp og þessar tillögur, enda aðstæður óvenjulegar. Það hefur óhjákvæmilega í för með sér að líkurnar á villum aukast vegna þess að þingmenn hafa ekki getað skoðað tillögurnar niður í smáatriði heldur verið meira í stóru línunum. Við í Samfylkingunni getum ekki stutt frumvarpið í heild, enda eru þar hvergi raunverulegar aðgerðir til að vinna gegn ójöfnuði sem fer vaxandi í samfélaginu. Við munum hins vegar styðja einstakar greinar, hvort sem það eru breytingartillögur frá meiri hluta eða minni hluta eða tillögur í frumvarpinu sjálfu, en frumvarpið í heild munum við ekki geta stutt.